Espergærde. Biðin langa

Á gangstéttinni framan við opið garðshlið stóð gömul kona þegar ég hjólaði heim á leið í gær um hádegisbil. Gamla konan var augljóslega að bíða eftir einhverjum. Sennilega var hún að fara eitthvert í heimsókn því hún var spariklædd, með stóra eyrnarlokka úr skínandi grænum eðalsteini. Hún var hokin, gamla konan, og eitt augnablik skaut þeirri hugsun upp í höfuðið á mér að eyrnarlokkarnir væru að sliga hana.

Að hjóla heim í hádegistímunum gerist ekki á hverjum degi. Erindi mitt heim er einkamál (aaaa, nú er ég að spauga, dagbókinni er trúað fyrir öllu.) En tveimur tímum seinna, eftir að hafa lokið erindi mínu heima við, hjóla ég sömu leið til baka, upp litlu brekkuna sem er á leiðinni til skrifstofunnar og mér til mikillar furðu stendur gamla konan enn í sömu sporum og tveimur tímum fyrr. Jafnhokinn og eyrnarlokkarnir virðast jafnþungir og áður. Garðshliðið er enn opið fyrir aftan hana. Skyldi hún enn vera að bíða?

Þetta minnti mig á eitt neyðarlegasta atvik í lífi mínu. Eitt af því sem ég get ekki hugsað um án þess að herpast saman inn í mér af skömm.

Ég hafði ekki búið lengi í Danmörku og það var sumar. Síminn hringdi og ég sá á skjánum að samtalið kom frá Íslandi.
“Alló,” segi ég.
“Já, sæll og blessaður stórforleggjari. Hitti ég vel á þig?” Á hinum enda línunnar er Pétur Már Ólafsson, nýr eigandi Bjarts. Eftir stutt kurteisisspjall segir hann: “Mig langar að biðja þig um smágreiða.”
“Já, sjálfsagt,” segi ég, vinsamlegur eins og mér er eðlislægt.
“Mamma mín, öldruð, er ein á ferð í Danmörku þessa dagana og ætlar að heimsækja ættingja sína sem eru búsettir rétt utan við Helsingör á miðvikudaginn í næstu viku.”
“Já,” segi ég.
“Hún á að að fljúga heim frá Kastrup sama dag. Ég var að velta fyrir mér, ef það er ekki til of mikils mælst, að spyrja hvort nokkur leið væri að plata þig til að sækja hana til Helsingör og keyra til Kastrup. Hún er dálítið óörugg með að taka lest og svona…”
“Já, það er algerlega sjálfsagt,” segi ég og er glaður að geta aðstoðað bókamanninn frá Íslandi og mömmu hans.

Svo kom næsta vika og ég hafði verkefnið með mömmu Péturs á algerum forgangslista í huganum. Í sömu viku voru mörg önnur erindi sem ég þurfti að sinna. En svo rann upp dagurinn sem ég átti að sækja mömmu Péturs… hélt ég. Ég fer í jakka og kveð fjölskylduna og segi að ég keyri af stað til Helsingör og til Kastrup. Það kom hik á Sus.
“Hmm, var það ekki á morgun sem þú áttir að sækja gömlu konuna?”
“Á morgun? Hvaða dagur er í dag?”
“Það er þriðjudagur og þú áttir að sækja hana á miðvikudegi.”
Það var rétt, það var þriðjudagur, svo ég fór aftur úr jakkanum og hætti við að sækja gömlu konuna. Hætti við að sækja gömlu konuna er kannski nákvæmlega það sem gerðist því það var eins og verkefnið hefði þurrkast út.
Daginn eftir, á miðvikudeginum, var ég áhyggjulaus og tók á móti gestum frá Íslandi, spilaði fótbolta út í garði, sólin skein og allir voru glaðir … eða þangað til eldingu laust niður í hausinn á mér og ég mundi allt í einu aftur eftir mömmu Péturs, en of seint. Ég hafði algerlega gleymt henni og ég hefði átt að vera búinn að sækja hana fyrir 3 klukkutímum. Ég stirðnaði. Ég fékk algjört sjokk og hrópaði upp yfir úti í garðinum: “Æ, mamma hans Péturs, ó, nei, ég átti…” Ég hljóp inn og greip símann og hringdi í Pétur.
“Pétur!! Ég gleymdi mömmu þinni, hvar er hún?”
Pétur virkaði bara rólegur í símanum. “Já, hún var búin að bíða lengi úti á stétt en svo fór hún að ókyrrast og fór inn til að spyrja um lestarferðir til Kastrup. En þá var þar kona stödd í heimsókn sem skutlaði henni á lestarstöðina og kom henni í lestina til Kastrup. Svo þetta reddaðist. Hún er í flugvélinni á leið til Íslands.”

Æ, hvað ég skammaðist mín!

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.