Espergærde. Eimreið

Ég hef lengi gengið með þá kenningu í maganum að maður eigi ekki að tala of mikið um áform sín, helst þegja alveg um þau, og ekki segja frá fyrr en þau eru komin á framkvæmdastig. Í mínum huga er maðurinn eins og eimreið. Það á að minnsta kosti við um mig. Hugmyndirnar eru gufan sem knýr mótorinn. Ef maður hleypir hugmyndunum, þ.e. gufunni, út með því að opna munninn rýkur öll orkan ónýtt út í loftið. Haldi maður hins vegar munninum lokuðum safnast gufan upp inni í manni og myndar meiri og meiri þrýsting og þannig er framkvæmdamótorinn knúinn. Ég þekki alltof marga sem gaspra endalaust um áform sín sem verða fyrir vikið að engu.

Þetta segi ég vegna þess að í gær fékk ég eftirfarandi athugasemd frá einum af mínum ómetnalegu vinum. Hann byrjar að vitna í innlegg mitt frá því í gær. Ég hugsaði oft um það á heimsreisunni, síðasta vetur, að setja nokkra hluti í gang. Ég hugsa stöðugt, en ég ýti ekki skipunum úr vör. Ég hika.
Og svo segir hann:
“Er þetta sami maðurinn og skrifaði mér svohljóðandi tölvupóst: “Meira fjör.””

Já, ég hika, og réttlæti það með því að ég sé að láta gufuna safnast upp, mynda framkvæmdaþrýsting.

Litli sonur minn Davíð er áhugamaður um Tesla-bíla. Davíð segir að þegar hann verði stór ætli hann að verða verkfræðingur hjá Tesla. Fyrir þá sem ekki vita hvað Tesla er þá upplýsi ég hér með að það er bíll knúinn áfram með rafmagni. Tesla er enginn venjulegur rafbíll, þetta er lúxusútgáfa af rafbíl. Það tekur þrjár sekúndur fyrir bílinn að fara úr 0 km/t upp í 100 km/t. Davíð er svo áhugasamur um Tesla að hann hefur sjálfur keypt ævisögu Elon Musk, stofnanda Tesla og er nú að lesa hana. Hann hefur líka notað sparipeninga sína til að kaupa hlutabréf í Tesla. Hann keypti fyrir 1.750 DKK.

Í gær fórum við, öll fjögur, Sus, Daf, Núm og ég, inn í Kaupmannahöfn til að prufkeyra Tesla bíl. Ég er enginn áhugamaður um bíla en hvað gerir maður ekki fyrir sinn litla son. Bíllinn er sannarlega góður og ég get staðfest að það tekur ekki meira en 3 sekúndur að koma bílnum úr kyrrstöðu upp í 100 km/t. Bíllinn kostar líka 1.000.000 DKK eða 20.000.000 ikr.

Eftir prufukeyrsluna gengum við um miðbæ Kaupmannahafnar. Það er sjaldan sem við erum inni í bænum. En Kaupmannahöfn er í mínum huga ein flottasta borg Evrópu, góð stemmning. Við enduðum á því, áður en við tókum lestina aftur heim, að borða sushi á Nørregade. Ekki neitt meistarasushi.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.