Espergærde. Bjartur heitinn

Í gær fékk ég stuttan tölvupóst frá einum af mínum góðu vinum. „Ekki vissi ég að þú værir dáinn. Rakst á tilvísun inn á bloggið þitt undir nafninu Bjartur heitinn.“  Satt að segja skildi ég ekki þessi skilaboð. Eftir nánari eftirgrennslan komst ég þó að því að úti í hinni stóru rafveröld liggur heimasíða undir nafninu Heimskan. Þar er m.a. listinn „menningarhlekkir“. Í þeirri upptalningu eru nöfn menningarstofnana eins og Víðsjá, Kiljan, Bókmenntavefurinn og þar undir er „menningarstofnun“ sem kölluð er Bjartur heitinn. Þegar maður smellir á hlekkinn Bjartur heitinn lendir maður, nokkuð óvænt, hér inn á Kaktusinn.

Ég heiti auðvitað ekki Bjartur en í mörg ár var ég samnefnari með forlaginu mínu gamla. Margir kölluðu mig einfaldlega Bjartur. Ekki þarf ég svo sem ekki að leggja neina merkingu í að nú er sett heitinn fyrir aftan nafnið. Mér fannst samt óþægilegt að sjá þessa dauðatilvísun. Sjálfsagt á nafnið á hlekknum að vekja kátínu, sýna að höfundur listans er sprelligosi, og vísa til þess að ég er ekki lengur Bjartur.

dagbók

Skildu eftir svar