Espergærde. Hið rétta andlit

Hið rétta andlit, er gott orðatiltæki. Maður ber falkst andlit og rétt andlit. Best er maður  geislar af einhverju góðu þegar maður sýnir sitt rétta andlit.

Það er alltaf í mér bæði kvíði og tilhlökkun þegar ég keyri af stað til að taka þátt í kappleik í fótbolta. Mótherji gærdagsins var liðið í Hornbæk.  Mitt lið er IF Espergærde og við spilum í rauðröndóttum treyjum. Ekki heimsins flottasti búningur. Ég byrja á því að segja að í hópnum okkar eru nokkrir ansi skemmtilegir liðsfélagar (og aðrir minna áhugaverðir eins og gengur og gerist.) Ég hef mest uppáhald á þremur náungum, sóknarmanninum Jens Fredslund, trommara úr hljómsveitinni Big Fat Snake. Hann er þekktur maður hér í Danmörku, enda var hljómsveitin hans stórhljómsveit á sínum tíma. Hann er svartur og  ótrúlega fyndinn án þess að hafa fyrir því. Hann er bara náttúrulega fyndinn. Hinir tveir eru sympatískir náungar: Miðjumennirnir Trolle og Hamish (sem kemur frá Nýja Sjálandi). Við erum þrír útlendingar í liðinu og í Espergærde er liðið kallað perkerholdet (perker er mjög ljótt orð yfir innflytjanda).

Að spila fótbolta er góð skemmtun, sérstaklega þegar maður spilar góðan fótbolta. Í gær, eins og oft áður, þróaðist leikurinn á móti Hornbæk á versta veg. Því eldri sem fótboltamennirnir eru á vellinum því ókurteisari verða þeir, grófari og agressívari. Harðar tæklingar, ljótt orðbragð, hótanir, hróp og læti. Væl og ásakanir. Ég hef alltaf haldið því fram að hið rétta andlit birtist þegar maður spilar fótbolta. Eigingirnin, hinn skapandi kraftur, veiklyndið, sigurviljinn, hjálpsemin, örlætið og allt ógeðið brýst fram á fótboltavellinum. Oft birtist andlit sem maður hefur ekki séð áður. Hið rétta andlit.

Ég spila sem aftasti maður í mínu liði og það þýðir að ég tek þátt í mörgum einvígum á vellinum. Oft hörðum. Í gær spilaði ég móti manni sem sýndi sitt rétta andlit strax eftir fyrstu tæklingu.
“Ef þú gerir þetta aftur, vanskapaði skítur, rústa ég þér.” (Hvis du gør det igen, du lamme lort, smadrer jeg dig.)
Þetta voru okkar fyrstu orðaskipti. Ég hef aldrei fyrr hitt þennan mann og hann leyfir sér að tala svona við mig afþví að við erum á fótboltavelli.
“Þú átt ekki að tala svona, vertu kurteis,” segi ég. Harla óvenjuleg viðbröð á fótboltavelli. Flestir hefðu svarað í sömu mynt.
Eftir þessi fyrstu samskipti okkar, gekk ég hreinlega til verks, hann fann fyrir kroppnum á mér í hvert skipti sem hann fékk boltann og það átti ekki sérlega vel við minn mann, sem gaf olnbogaskot þegar hann hafði tækifæri til og í prívatsamtölum þegar dómarinn var víðsfjarri fékk ég að heyra að ég var bæði vangefinn fáviti, og að hann skyldi hafa uppi á bæði börnum mínum og konu. Geðslegur maður.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.