Espergærde. Næturþjáningar og Sedaris

Tvisvar sinnum neyddist ég til að fara á fætur í nótt og ganga um gólf. Í gær spilaði ég minn annan fótboltaleik á tveimur dögum. Harður leikur á móti Allerød. Það er sorglegt, en maður verður að horfast í augu við það, að kroppurinn hefur elst. Ég er hvorki jafn fljótur né fimur og ég var. Að ég get ekki sofið fyrir verkjum er afleiðing af tveimur hörðum fótboltaleikjum tvo daga í röð. Það sér fyrir endann á mínum langa og skemmtilega fótboltaferli.

Annars hlakka ég til helgarinnar. Á sunnudag eigum við von á góðum gesti frá Íslandi. Sjálft stórskáldið Kalman kemur og gistir meira en eina nótt. Það verður gaman.

Í gær fengum við aðra bók haustsins frá prentsmiðjunni, MIG VIL NOK TALE PÆNT, eftir þann góða mann David Sedaris. Sedaris heimsótti okkur í Danmörku fyrir tveimur árum og það var að vissu leyti uppgötvun að hitta hann. Það var nefnilega sérlega gaman að fylgjast með honum tala við fólk. Það var ekki sá maður sem hann hitti á götu, veitingahúsi, verslun… sem hann myndaði ekki samband við. Hann gat átt langt og innilegt samtal um kúlupenna, föt, ferðatöskur við algerlega ókunnugt fólk. Sedaris er göngumaníak og gengur meira en 20 km á hverjum degi, alltaf með stóran ruslapoka með sér sem hann fyllir af göturusli. Svo mjög varð hann frægur í Englandi, þar sem hann er nú búsettur, að hann var kallaður fyrir drottninguna til að taka á móti heiðursorðu fyrir náttúruhreinsun. Hann hefur líka fengið öskubíl nefndan í höfuðið á sér.  Fyrir vini okkar í Vico del Gargano á Ítalíu væri fengur að fá David Sedaris til að ganga nokkra daga um sveitavegina. Hann þyrfti örugglega að hafa fleiri en einn ruslapoka með sér.

Ég hef verið spurður um hvað vefsíðan Heimskan er, heimasíðan með linknum: Bjartur heitinn sem ég þusaði yfir í vikunni. Ég læt hér með link fylgja svo forvitnir geta skoðað hana.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.