Espergærde. Hér er ég

Ég skrifa nærri því dagleg í dagbókina mína Kaktusinn. Þetta eru persónuleg skrif. Hér er ég. Mér finnst gaman að setjast niður og detta inn í þessa litlu holu og skrifa um það sem mér er efst í huga. Ég er skilyrðislaust til staðar. En ég finn alltaf fyrir þverstæðunni í að skrifa þessa dagbók. Er ég að skrifa fyrir mig eða fyrir lesendur mína? Ég skynja hinn óþekkta lesanda kíkja yfir öxlina á mér á meðan orðin hrannast upp á skjánum fyrir framan mig. Um leið hugsa ég: hér er ég.

Hér er ég. Eins og Abraham sagði þegar Guð kallaði til hans og setti fyrir hann prófraun.
Guð mælti til hans: „Abraham.“
Og hann svaraði: „Hér er ég.“
Abraham gekk af stað með son sinn Ísak og þegar Ísak uppgötvaði að eitthvað var bogið við gönguför þeirra segir hann:
„Faðir minn.“
Og Abraham svaraði: „Hér er ég, sonur minn.“
Í orðum Abrahams felst samskonar þverstæða, hann getur ekki verið skilyrðislaust til staðar bæði fyrir son sinn Ísak og fyrir Guð. Og svona þverstæður geng ég lika með, og sennilega fleiri. Ég get ekki verið bæði til staðar fyrir mig og hugsanlega lesendur. Fyrir marga er hér er ég-þverstæða að vera foreldri og ná á sama tíma frama á sínum starfsettvangi. Fyrir suma er það hér er ég-þverstæða að vera í hjónabandi en um leið að vera einstaklingur. Sólóisti.

Allt leysist þetta. Gönguförin hjá Abraham og Ísak endaði vel. Hér er ég.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.