Espergærde. Að gráta með ekka.

Helgin að baki. Í gær kom Jón Kalman í heimsókn. Skáldið hefur raskað svefntímanum hjá mér svo nú er ég svefnlaus eftir langt næturrabb. Fluginu frá Genf, þar sem Kalman hefur tekið þátt í einhverri bókmenntahátíð, seinkaði svo hann kom hingað þegar almyrkt var orðið. Hann verður hér hjá okkur þangað til á morgun. Við sjáum um að hann fari hvorki svangur né þyrstur í háttinn.

Í gærdag komst Númi í mikið uppnám. Hann á að skrifa skólaritgerð um skáldsögu sem honum finnst svo hrikalega leiðinleg að hann er eiginlega með æluna í hálsinum í hvert skipti sem bókin ber fyrir augu hans. Seinnipartinn í gær fékk hann nóg. Hann sat inni í eldhúsi með tölvuna fyrir framan sig og hina mjög svo hötuðu  bók opna við hliðina á tölvunni. Úti var úrhellisrigining, allt var blautt og sorglegt að sjá. Hann stóð upp frá ritgerðarskrifum sínum, gekk inn í stofu og lagðist upp í sófa í fullkominni uppgjöf.
„Hvað er, Númi minn?“ segi ég sem var nýbúinn að hella mér upp á kaffi og sat makindalega með dagblaðið fyrir framan mig.
Og úr hans dýpstu sálarkimum kom þetta örvæntingarandvarp: „Ég get þetta ekki. Ég get ekki skrifað um þessa skeflilegu bók. Þetta er svo langtum meira en eitthvað leiðinlegt, þetta er óbærilegt. Og fullkomlega tilgangslaust. Ég get þetta ekki.“ Í augunum var fullkomin uppgjöf, og tárin rúlluðu niður kinnarnar á þessum stillta dreng sem venjulega grætur ekki yfir lífinu.

Mér var hugsað til kunningja míns sem sagði mér einu sinni að hann gæti ekki grátið opinberlega. Hann tilheyrir hóp manna sem vinnur á þekktri umboðsskrifstofu rithöfunda. Starfsmennirnir eru um það bil 15 og þetta er einsleitur hópur ungs fólks sem leggur sig fram um að vera bæði smart og töff, og er það. Hann hafði farið með vinnufélögum sínum að horfa á kvikmynd. Hann hafði einmitt séð um að selja kvikmyndaréttinn fyrir hönd höfundarins. Þetta var einskonar forsýning, einungis fyrir vinnustað kunningja míns. Þau sátu þétt saman vinnufélagarnir í litlum bíósal með djúpum, rauðbólstruðum sætum. Myndin var í senn áhrifamikil og sorgleg, sagði hann. Smám saman, og hver á fætur öðrum, misstu vinnufélagarnar tök á tilfinningum sínum. Tárin streymdu í lygnum straumum niður vanga sessunauta míns manns, sumir snöktu hljóðlega og aðrir laumuðust til snýta sér og þerra tárvota vanga. En minn maður sat eins og steingervingur og sýndi ekki minnsta vott um sálarátök sem þó ólguðu innra með honum.
„Ég græt ekki á opinberum vettvangi. Ég græt aldrei opinberlega,“ sagði hann. „En svo einu sinni á ári, þegar ég heimsæki foreldra mína sem búa í litlum bæ 600 km norður af Stokkhólmi, gerist eitthvað. Hver jól keyri ég einn norður til þeirra og hver jól gerist það sama. Ég geng upp tröppurnar og opna dyrnar að barndómsheimili mínu og mamma kemur á móti mér. Ég horfi á hana nálgast með opna arma og ég finn bara risastóra bylgju rísa innra með mér, ég ræð ekkert við mig. Ég fer að hágráta. Ég græt hástöfum og með ekkahljóðum. Ég get ekki stoppað, ég er óhuggandi. Svo kemur pabbi og ég græt enn meira.“

Nú sitjum við tveir inni í stofu á Søbækvej, ég og skáldið. Við erum stilltir. Báðir sitjum við yfir tölvum okkar og skrifum. Ég skrifa um grátandi menn. Ég veit ekki um hvað Jón Kalman skrifar en hann hamrar á lyklaborðið og ég heyrir hvininn af orðunum þjóta fram hjá mér og inn í tölvuna hans. Úti situr rauður köttur í gluggakarminum og horfir á okkur til skiptis, mig og skáldið. Sólin skín á rauðan kattarpelsinn ofan af bláum himni.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.