Espergærde. Engin vinna

Engin vinna í gær.  Jón Kalman var í bænum og við notuðum daginn til að spássera. Gengum niður á Strandvejen. Stoppuðum á Il Divino, ítalska veitingastaðnum sem er hér í Espergærde, settumst þar niður í nokkra klukkutíma með Sus. Héldum síðan áfram gönguför okkar eftir Strandvejen út í kirkjugarð, og áfram út í skóginn og aftur til baka heim á leið.

Í gær var hátíðarveður, glampandi sól og brakandi logn; dagur til að sitja út á verönd og það gerðum við. Sátum úti á verönd. Eftir kvöldmat tók ég sjóræningjaforritið fram svo við gætum séð fótboltaleik Íslands og Úkraínu. Ég tek það hér fram til að muna það síðar að leikurinn  endaði 1-1. Alfreð Finnbogason, atvinnumaðurinn frá Augsburg,  skoraði mark Íslands á 6. mínútu.

Ég las um daginn bréfaskipti rithöfundanna Karl Ove Knausgaard og Fredrik Ekelund um fótbolta. Það kom mér á óvart hvað þessir tveir menn mundu margt frá gömlum fótboltaleikjum. Þeir gátu til dæmis lýst því þegar brasilíski fótboltamaðurinn Sókrates brunaði upp vinstri kantinn í leik sem var leikinn fyrir meira en 20 árum. Það er ekki hægt að segja að það sé mín sterka hlið að lýsa eftirminnilegum atvikum úr liðnum fótboltaleikjum. Ég man þá ekki stundinni lengur. Leikir úr heimsmeistarkeppni frá síðustu öld eru ekki einu sinni sem þoka í mínum huga; hér er tómt blað. Ekkert.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.