Espergærde. Að komast í sokka

Ég hef gefið út bækur í mörg ár. Nú hef ég fengið það á tilfinningunni að aldrei fyrr á mínum ferli hef ég verið bombarderaður með jafnmörgum einsleitum bókum. Það sem kallað er sálfræðitryllar. Síðustu mánuði hefur skolast á land með hinni stóru sálfræðitryllaflóðbylgju bækur sem bera titilinn The Girl og svo kemur eitthvað spennandi (The Girl on the Train, The Girl who Disappeard, The Girl on fire, The Girl in the Red Coat, The Girl in the Blue Coat …). Ég las í gær grein eftir gamla perúska skáldið Vargas Llosa sem heitir “How Global Entertainment Killed Culture.”  Dálítð svartsýn grein hjá hinu aldraða skáldi sem heldur því fram að nú gangi allt menningarlíf “markaðnum” á hönd. Ekkert er lengur gott nema það nái metsölu og metathygli. Menningin er orðin iðnaðarvara og eini mælikvarði á gæði er árangur á markaðinum. Svo sem ekkert nýtt.

Ég hef sett mér nýtt markmið. Þegar ég kemst ekki lengur í sokka án hjálpar hætti ég að spila fótbolta. Síðustu morgna hef ég tekið tilhlaup að því að fara í sokka og gengið með sokkana í vasanum fram yfir morgunmat því ég hika í baráttunni við að klæða mig í sokkana. Þetta er aumkunarvert. Hingað til hef ég þó komist í sokkana… með herkjum. Um leið og ég tapa þessari baráttu lofa ég að hætta að spila fótbolta.

Á morgun flýg ég til Íslands. Ég á flugmiða og ég hef náttstað. Allt eins og það á að vera.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.