Kastrup. Flugfélag á götunni

Ég er í flugvél. Að vísu ekki í háloftunum heldur á stæði í Kastrup. Ég bíð eftir að komast í loftið á leið til Reykjavíkur. Ég flýg með WOW-air.

Í gær á ferðum mínum um minn litla bæ sá ég götuauglýsingu. Outdoor eins og auglýsingamenn kalla þessi skilti sem standa á gangstéttum í öllum evrópskum borgum. Ég hafði mætt flokki skólabarna í morgunsólinni sem voru úti að hjóla með kennara sínum. Ég staldraði við, því ég þekkti kennarann sem spilar fótbolta með mér,og mörg af börnunum  sem heilsuðu kumpánlega: “Hæ, Zlatan.” Ungu nemendurnir voru með hjólahjálma á höfðinu og voru glöð að fá að nota skólatímana til að hjóla um bæinn og heilsa upp á gangandi bæjarbúa.

Hinum megin við götuna stóð auglýsingaskilti með auglýsingu frá mínu ástkæra flugfélagi Icelandair. Ég hafði tekið eftir auglýsingunni fyrr í vikunni. Myndin á auglýsingaspjaldinu var af heiminum og svo komu línur frá Íslandi yfir til annarra landa, þangað sem flugfélagið flýgur. Ég finn alltaf fyrir stolti þegar ég sé íslenskt fyrirtæki hnykkla vöðvana í útlöndum.

Auglýsingin var heillandi. Heimurinn í tengslum við Íslandi. Útundan mér, hinum megin við götuna, sé ég  mann í sandölum koma gangandi og skima mjög í átt til auglýsingarinnar. Hann var hálfsköllóttur, eins og svo mjög er í tísku nú um daga, og sennilega búinn að halda afmælisveislu í tilefni sextugs afmælis síns. Hann er kannski ekki maður sem dansar alsber við lög Bubba Mortens, en hann var líklegur til að hafa áhuga á Íslandi. Og svo mjög virtist auglýsingin heilla hann að hann tók stefnuna rakleitt upp að skiltinu, tók stöðu rétt fyrir framan það og stúderaði nákvæmlega allar flugleiðir Icelandair.

Ég hugsaði með mér – ég sem hef keypt svo margar götuauglýsingar í lífinu – að þessi auglýsing fékk óskipta athygli að minnsta kosti eins manns.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.