Reykjavík. Leynifundur og leyniverkefni.

Kominn til Reykjavíkur og búinn að vera hér í tvær nætur. Borgin tekur vel á móti mér með sínum þungbúnu skýjum  en vinsamlegu viðmóti. Ég hef hitt marga og er miklu nær um margt. Eitt af markmiðum ferðar minnar var að sjósetja verkefni sem ég hef gengið með í maganum í nokkra mánuði.

Ég átti stefnumót í gær við mann sem hefur verið ráðinn til að vera það sem kallað er coach verkefnisins. Þann 12. september hefst vinnan. Ég get ekki skrifað margt um það sem ég hef í huga þar sem annars vegar er um algert leyniverkefni að ræða og fyrsta áfanga lýkur í fyrsta lagi í febrúar 2017. Hins vegar er ég að skrifa gleraugnalaus og ég sé ekki alveg stafina á skjánum.

Það var skemmtilegt að hitta coachinn sem augljóslega kann sitt fag. Ég finn að ég er gífurlega heppinn að fá slíkan mann með: “Við verðum að setja rána hátt annars er ekkert gaman að þessu. Ef við værum að hanna bíl þá væri niðurstaðan ekki Toyota  heldur bíll sem er bæði flottari, kraftmeiri og fullkomnari en Maserati. Ef við værum að skrifa barnabók þá er útkoman ekki bók eftir Ármann Kr. Einarsson heldur skáldverk sem er stórfenglegra en Harry Potter.  Ef við ætluðum að stofna veitingahús þá er það glæsilegra og geggjaðra en El Bulli og NOMA til samans. Ég las bloggið þitt þar sem þú talaðir um að maðurinn sé eins og eimreið, hugmyndagufan knýr fólk áfram. Ég skil hvað þú átt við og ég verð á brautarpallinum þann 12. september, klár í slaginn og keyri með. Ég geri ráð fyrir að það taki tíu ár að fullkomna verkið.”

Ég skildi hvað coach-inn var að meina og ég fann að ég þarf að herða nokkrar skrúfur til að standa undir kröfum þessa viðkunnalega og skarpa leiðbeinanda. Ég hef aldrei verið þátttakandi í svona verkefni svo ég er bæði ákafur, spenntur og hlakka mikið til.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.