Kominn til Keflavíkur á leið til baka til Danmerkur. Heimsóknin til Íslands var að öllu leyti mjög góð. Í fyrsta lagi var frábært að búa hjá Söndru minni og fjölskyldu í nýju íbúðinni með gestaherbergi. Það breytir Íslandsheimsókninni alveg að vakna með mínu fólki á morgnana og svæfa Öglu á kvöldin. Hingað til á Íslandsferðunum hef ég gist í hótelíbúðum. Og þar að auki er það ómetanlegt að ég á enn marga mjög góða vini á Íslandi sem vilja hitta mig.
Í gær, eftir að hafa horft á stórkostlegan fótboltaleik milli Manchester United og Manchester City með Palla Vals, lauk ég einu af þeim mikilvægu erindum sem ég átti á Íslandi. Fyrst ætla ég að hrósa Palla, því það á hann inni. Ég hef oft horft á fótboltaleiki í sjónvarpi og með ólíku fólki. Palli kann að horfa á fótboltaleiki með öðrum, hann veit hvenær hann á að þegja og hvenær hann á að kommentera. Og svo er ekki verra að hann er aðdáandi Fellainis (sjá mynd). Það er glatað að horfa á fótbolta með einhverjum sem alltaf er að tala og heldur að fótboltaleikur í sjónvarpi sé bara einhver undirleikur fyrir samtal manna. Góður fótboltaleikur er eins og fagur ballet, og maður á bara að gefa frá sér hljóð þegar maður sér eitthvað einstaklega fallegt eða heillandi. Við Palli höfðum ætlað að sjá leikinn á Forréttindabarnum en það kom í ljós að barinn var lokaður fyrir hádegi og þrátt fyrir ákafar tilraunir Palla að komast inn á lokaðan veitingastað urðum við frá að hverfa og flytja okkur niður á Enska barinn.
En sem sagt ég átti erindi á Íslandi. Mamma mín var stoltur eigandi að hlut í Hergisley á Breiðafirði og á hverju ári fékk hún þykkt umslag með peningum, svokallaða dúnpeninga. Þetta var ein af hennar stóru stundum ár hvert þegar dúnpeningarnir komu. Eftir að foreldrar mínir dóu þá höfum við systkinin deilt þessari vænu dúnpeningafúlgu, hinu hnausþykka umslagi með stórum seðlum, á milli okkar.
Í ár ákvað ég að spyrja þann sem sér um dúntínslu í Hergisley hvort ég gæti ekki frekar fengið sæng með Hergilseyjardún í stað peningabúntsins. Dúnmaðurinn sagði að það væri hægt, en með nokkrum tilfærslum sem ég ætla ekki að þreyta lesendur með. Ég lagði sem sagt inn pöntun á dúnsæng í fyrra sem ég gaf svo Sus í afmælisgjöf þegar hún átti afmæli í vor. Nú var komið að því að sækja sængina. Hafliði bróðir minn, hinn mikli reddari fjölskyldunnar, hefur verið milligöngumaður í framleiðsluferlinu, og hann bauðst til að keyra mig til dúnmannsins og sækja sængina. Ég var orðinn hálfáhyggjufullur yfir sænginni og var farinn að óttast um að mér tækist ekki að hafa upp á þessari síðbúnu afmælisgjöf áður en ég færi til baka til Danmerkur. Ég hafði bæði reynt að hringja í Hafliða og senda honum SMS en það var ómögulegt að ná í hann. Svo kom í ljós að síminn hans hafði verið batteríslaus. En Hafliði sér um sína og hafði skipulagt afhendinguna svo ekkert gat farið úrskeiðis. (Og nú þegar ég skrifa þessar línur, kominn til Danmerkur, (ég náði ekki að klára að skrifa á Keflavíkurflugvelli) er sængin í sinni höfn.)
