Espergærde. Að borða fíl

Í gær var 12. september. Sögulegur dagur frá mínum bæjardyrum séð og það af tveimur ástæðum. Þann 12. september árið 2006 fluttum við til Danmerkur. Stór áfangi í lífi mínu. Eiginlega hefðum við átt að halda upp á þetta, fagna, því árin hér í útlöndum hafa verið góð. Sem sagt fyrir 10 árum.

(Sumir hefðu sagt fyrir 10 árum síðan. En það geri ég ekki. Þetta var ein af þeim flugum sem pabbi minn hafði í höfðinu. Hann var harður andstæðingur þess að maður sagði: fyrir 10 árum SÍÐAN). „Hvað á þetta ‘síðan’ að þýða. Það er nóg að segja fyrir 10 árum. Síðan er bara danska. Siden.“).

Þetta var útúrdúr. Önnur ástæða til að setja hring um þann 12. september er að ég tók fyrstu skóflustunguna að mínu nýja, stóra verkefni. Ég hafði lofað mér og coachi verkefnisins að byrja þann 12. september. En satt að segja hélt ég að að það væri í dag (sem er sá 13. september). Í gær, þegar ég uppgötvaði að dagurinn væri upp runninn og að ég yrði að byrja, var ég bara ekki alveg tilbúinn.

Samt settist ég niður í gærkvöldi og skrifaði lítinn verkefnalista, bjó til möppu í tölvunni fyrir verkefnið og ýtti úr vör. Allir aðrir á heimilinu voru farnir að sofa.Ég sat þarna einn í hálfrökkrinu og það þyrmdi eiginlega yfir mig. Hvað var ég eignlega búinn að koma mér út í? Ég fann að ég hafði sett markið ansi hátt og mér fannst eignlega algerlega, frá fyrstu mínútu, vonlaust að mér tækist nokkurn tíma að komast í mark.  Upp í huga mér kom spurning sem einn af mínum gömlu vinum spurði alltaf þegar okkur fannst eitthvað óyfirstíganlegt.

„Hvernig borðar maður fíl?“ spurði hann.
„Ég veit það ekki,“ svaraði ég.
„Einn munnbita í einu,“ var svarið.
Og svo tekur maður fyrsta bitann.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.