Espergærde. Dularfullt atvik

Klukkan sex í morgun var hringt á dyrabjöllunni heima hjá mér. Sem betur fer eða því miður lá ég vakandi og því heyrði ég skæran hljóm bjöllunnar óma í morgunkyrrðinni. Ég var auðvitað í vafa um að ég heyrði rétt. Það hringir enginn á dyrabjöllu eða bankar upp á svona snemma morguns. Ég lá því kyrr og lagði við hlustir. Alger þögn. Meira að segja fuglarnir, sem eru vanir að syngja í garðinum á þessum tíma, héldu niður í sér andanum til að heyra hvað verða vildi. Og svo kom það. Bling blong. Aftur hljómaði dyrabjallan. Það fór ekki á milli mála að einhver vildi annað hvort komast inn eða tala við mig. Eða hvort tveggja.

Ég fór framúr og hljóp niður og  í gegnum eldhúsið því þaðan sér maður í gegnum eldhúsgluggann hver stendur í dyratröppunum. Á pallinum fyirr framan dyrnar stóðu tveir svartklæddir  og herðabreiðir menn. Ég fann eins og það færi rafstuð í gegnum mig þegar ég sá að þetta voru lögreglumenn. Hvað vildu þeir?

Mér var brugðið og ég hljóp út í gang til að opna. Hvaða erindi eiga laganna verðir hingað til mín? Upp úr sálardjúpunum kom öll mín vonda samviska. Hvað hafði ég nú gert? Hvern hafði ég nú styggt? Upp í hugann kom maður í gráum, síðum frakka sem stendur undir húsvegg með ferðatösku við fætur sér. En ég fann ekkert sem gæti réttlætt lögregluheimsókn. Ég opnaði því dyrnar um leið og ég rétti úr mér.
“Góðan daginn,” sagði ég eins hressilega, en ekki of hressilega miðað við tíma dags. Hvað á maður annars að segja þegar maður tekur á móti tveimur þungbúnum lögreglumönnum?
“Góðan daginn, ég heiti Kasper,” sagði annar lögregluþjónninn og steig um leið eitt skref í áttina til mín og hallaði sér upp að andlitinu mínu, eins og hann væri að þefa af mér. Svo hélt hann áfram eftir stutt valdsmannslegt hik. “Átt þú bíl með númerið BB 45 354.”
Það kom fát á mig. Ég hef aldrei lagt númerið á bílnum mínum á minnið. Ég var nokkuð viss um að það byrjaði á BB en það fannst mér ég ekki geta sagt við þessa alvöruþungu lögregluþjóna klukkan sex að morgni. Svo ég sagði: “Af hverju spyrðu?”
Ég sá strax að þetta var ekki rétt svar. Báðir lögreglumennirnir gáfu það skýrt til kynna að þeir vildu umsvifalaust svar við spurningunni: Átt þú bíl með númerið BB 45 354. Ég bara vissi það ekki. Ég veit ekki hvert bílnúmerið er. Ég reyndi því að klóra í bakkann og bætti því við hraðmæltur. “Hvernig bíll er það?”

“Megum við koma innfyrir?” sagði lögreglumaðurinn og steig fram svo ég gat ekki annað en hleypt þeim fram hjá mér. “Megum við aðeins spjalla við þig?”
“Já, já,” sagði ég aumingjalega. Ég vissi sannarlega ekki hvað ég skyldi halda.
“Þú ert skráður eigandi bíls með þetta bílnúmer…” Þögn. Ég beið eftir að þeir segðu eitthvað meira. Og þeir virtu  mig fyrir sér eins og til að kanna ástand mitt. “OK. Og hvað?” sagði ég.
“Bíllinn þinn stendur mitt út á Søbækvej og lokar allri umferð um götuna.”
“Ha! Mitt út á götu… ha?”

Við gegnum saman út, ég og lögreglumennirnir sem allt í einu voru sannfærðir um að ég var í lagi. Og það var rétt bíllinn minn stóð mitt út á götu. Hvernig hann komast þangað hef ég ekki hugmynd um. Sama hvað lögreglumennirnr spurðu mig og við spekúleruðum. Ég gat ekki skýrt afhverju bíllinn var 200 metrum frá þeim stað sem Sus hafði lagt bílnum í gær.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.