Espergærde. Tap fyrir Gyldendal

Í gær tapaði ég uppboði á bók sem ég hefði viljað gefa út hér í Danmörku. Í síðustu umferð (af þremur) voru tvo forlög eftir, Hr. Ferdinand og Gyldendal. Gyldendal vann. Sennilega af því að ég fór ekki heilshugar inn í uppboðið. Hálft í hvoru vildi ég ekki vinna keppnina um bókina og borga margar milljónir fyrir útgáfuréttinn. Það var ekkert að bókinni. Fín bók. Þó ekki bók sem ég hefði gengið í gegnum eld og brennistein fyrir. Slíkar bækur eru því miður ansi fáar í lífi mínu. Ef ég gæfi bara út þannig bækur kæmi í mesta lagi ein bók út á ári hjá hinu virðulega forlagi Hr. Ferdinand. Þessi hállfvelgja mín einkennir kannski bara afstöðu mína til bókaútgáfunnar þessa dagana. Ég er ekki alveg í takti.

Í gær keppti ég í fótbolta á móti Hillerød. Hillerød er lítill bær hér á Sjálandi sem liggur í um það bil 25 mínútna aksturfjarlægð frá Espergærde. Með okkur spilaði nýliði, Thomas, og það var það besta við leikinn (Við unnum). Mjög viðkunnanlegur maður. Þar sem hann var svo feiminn við okkur hina í liðinu ákvað hann að hjóla frá Espergærde í stað þess að biðja einhvern okkar um bílfar. Hann á ekki bíl hann Thomas og hjólaleiðin er ekki stutt. Þetta fannst mér dæmigert fyrir allt hans viðmót. Þessi  hlédrægi, lítilláti og brosandi  maður spilar fótbolta á sama hátt. Góðan fótbolta.  Vonandi spilar Thomas fleiri leiki með liðinu okkar.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.