Espergærde. Helgardagskrá

Tveir dagar í röð án þess að ég skrifi inn í dagbókina. Skandall. Helgarnar virðast bara ekki vera dagarnir sem ég sest niður til að færa dagbók. Ég er merkilega upptekinn um helgar án þess þó að vera sérlega upptekinn. Laugardagur og sunnudagur liðu með eftirfarandi dagskrárliðum í réttri röð: Morgunmatur og dagblaðalestur, tennis með Núma, innkaupaleiðangur til kjötkaupmannsins, hádegismatur, undirbúningur fyrir matarboð (aðstoðarkokkur), tennisæfing, áframhald að undirbúningi fyrir matarboð, Kim og Lis koma í kvöldmat, sofa, morgunmatur og lestur dagblaða, grafa skurð í garðinum fyrir háspennulínu, hádegismatur, halda áfram að grafa skurð fyrir háspennulínu, út í Stark í Helsingör (byggingavöruverslun) til að ná í rauðan aðvörðunarborða svo ekki sé grafið niður í háspennulínu, kvöldmatur, kvöldtennis með duglegu hjónunum, lesið, góða nótt.

(Verst að ég gleymdi að taka mynd af mínu stóra helgarafreki. 5 metra löngum skurði í grjótharða danska jörð.)

Svona leit nú helgardagskráin út. Gleymdi að taka fram, að á laugardaginn las ég viðtal við hinn nýbakaða, ef maður má segja svo, bókaútgefanda Guðúnu Vilmundardóttur. Mér fannst viðtalið við minn gamla samstarfsmann mjög gott; eðlilegt, glaðlegt og jákvætt. Ef hún heldur áfram á þessum nótum, hinn nýbakaði útgefandi, verður Benedikts-forlagið hennar bæði sterkt og gott.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.