Espergærde. Að telja ekki skrefin sín

Í morgun þegar ég hjólaði til vinnu kom upp í hugann mynd af konu sem sat mér við hlið í veislu fyrir nokkru. Ég þekkti ekki konuna en um leið og ég settist næst henni  leit hún á mig og sagði hátíðlega nafn sitt. Svo hátíðlega að ég velti fyrir mér hvort hún væri fræg og ég ætti að vita hver hún væri. Nafnið sagði mér ekki neitt. Ég leit undan og skoðaði borðstofustólana sem voru bólstaðir með sægrænu flaueli. En hún hélt áfram í vinsamlegum  tóni að gefa mér greinargóða mynd af lífi hennar síðstu árin. Þetta gerðist á fyrstu átta mínútum veislunnar. Við borðið sátu tíu brosmildar manneskjur.

Ég vissi ekki hvort hún ætlaðist til að ég gæfi jafn skýra mynd af mínu lífi þegar hún þagnaði og virti mig náið fyrir sér. Jafnvel óþægilega náið. Ég var ekki tilbúinn að gefa svo mikið frá mér í þessu opnunaratriði borðhaldsins.

Ég sagði því í flýti hvað ég héti og að ég kæmi frá Íslandi. Það fannst mér nóg í bili. Og það er yfirleitt nóg til að fólk hrópar yfir sig  annaðhvort „Ísland, frábært“ eða ef það er karlmaður með knattspyrnuáhuga: „Huh!“ og svo snýst umræðan jafnan um landið fagra í norðri. En hún þagði og beið eftir fleiru. Upplýsingarnar um nafn og þjóðerni voru greinilega, í hennar huga, ekki fullnægjandi. Þögnin og hið eftirvæntingarfulla andlit varð til þess að ég, á þessu augnabliki veislunnar, spurði sjálfan mig: Hver er ég? Mér við hlið hafði ég augljóslega manneskju sem var óvenju áhugasöm um svarið. En um leið vissi ég að þetta var hvorki staður né stund til að grufla í tilvistarspurningu af þessu tagi.

Ég hef í gamni og alvöru oft svarað spurningunni hver ég sé með því að segja að ég sé góður í að bera, halda á hlutum langar leiðir. Það er ég.

Guðmundur Andri Thorsson, sagði frá mömmu Guðmundar í Miðdal í gömlum útvarpsþætti sem ég hlustaði á um helgina (í podcasti eins og það heitir) meðan ég gróf skurð fyrir háspennulínu. Hún taldi ekki skrefin sín var persónulýsingin sem mamma Guðmundar í Miðdal fékk. Ég vildi gjarnan geta bætt á mig þessum persónueiginleikum. Hann taldi ekki skrefin sín.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.