Espergærde. Æðiskast

Í mínu ungdæmi hét það að taka æðiskast ef maður missti stjórn á skapi sínu. Nokkrir krakkar sem maður þekkti áttu það til að taka æðiskast. Og þeim var því oft strítt því það var bæði heillandi og skelfilegt að sjá mannveru sýna sína innilegu og óheftu reiði. Bræður Palla Vals, þeir Hemmi (gullkálfur) og Kalli og voru gjarnir á að taka æðisköst og það var fremur létt að framkalla þau.

Í gær tók ég æðiskast. Mitt fyrsta í hundrað ár. Skyndilega sortnaði mér fyrir augum, tók gleraugun mín og henti þeim niður í borðið, reif  jakka minn af snaganum, yfirgaf vinnustaðinn og kom ekki til vinnu það sem eftir lifði dags. Hvað kveikti þessa skyndilegu reiði? Ja, það er eiginlega góð spurning. Bók í rangri stærð? Ég fékk bók í hendurnar sem var 5mm mjórri en hún átti að vera og búmm!

Ég er auðvitað alls ekki ánægður með þessi viðbrögð og á erfitt með að skýra þau. Ég hef nokkrar lélegar afsakanir á takteinum.  Ég finn að ég er þreyttari en vanalega vegna stöðugra verkja í mjöðm og mjóbaki. Og mér finnst það taka langan tíma að fá útgáfuna upp í gír eftir okkar langa ferðalag og fjarveru frá vinnu. Og mitt stóra leyniverkefni tekur toll, hugurinn keyrir á milljón snúningum á sekúndu en framfarirnar eru að mínu mati ekki nógu miklar.

En nú er ég aftur rólegur og held að ég geti beðið í önnur hundrað ár eftir nýju æðiskasti.

img_8424
Morgunsólin í Espergærde. Ég gekk til vinnu í morgun þar sem ég hafði gleymt hjólinu mínu í fátinu í gær.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.