Gautaborg. Beðið eftir Ulla Nilsen

Ég vaknaði snemma í mjúku hótelrúminu og var fljótur að gera mig kláran til að ganga niður á litla veitingastaðinn á fyrstu hæðinni til að borða morgunmat. Ég varð heldur undrandi þegar ég sá hvað fólk er árrisult hér í Gautaborg; litli, hálfrökkvaði veitingasalurinn þar sem morgunmaturinn er framreiddur var þéttsetinn. Mér til happs var laust borð út við dyrnar. Þar settist ég niður og fékk mitt ágæta morgunkaffi. Allt var fínt, djúpir stólar og þægilegir bekkir. Hillur skreyttar með smáhlutum og bókum, dempuð ljós, ljósakrónur með blómamunsri og blómaveggfóður. Þetta var sjarmerandi, hallærislegur staður.

Ég hafði vart tekið fyrsta sopann af afar sterkri uppáhellingu þegar ég er ávarpaður af eldri herramanni í ljósum fötum. „Fyrirgefið,“ sagði hann afar lágt til að vekja ekki óþarfa athygli á sér, „eruð þér að bíða eftir Ulla? Ulla Nilsen?“
Það kom örlítið fát á mig. Átti ég stefnumót við einhverja Ullu? Á bókamessum á maður endalaus stefnumót við ókunnar manneskjur. Oft mælir maður sér mót á gangi eða anddyri tiltekins staðar og svo bíður maður og reynir að spotta út hvort manneskjan sem maður á stefnumót við er komin og hver af öllum þeim sem bíða eða ganga hjá gæti verið rétta persónan. Oft gengur maður á milli fólks og spyr. En nú kom þessi aldraði herramaður í ljósu fötunum til mín og spurði hvort ég bíði eftir Ulla. Ég gat ekki annað en svarað því neitandi þótt ég satt að segja væri í pínulitlum vafa. Ég kíkti meira að segja í dagbókina mína til að sjá hvaða fundi ég ætti í dag.

Ég fylgdist með manninum ganga á milli borða og spyrja fólk hvort það biði eftir Ulla Nilsen. Hann hallaði sér kurteislega fram og bar  upp erindi sitt af mikilli hófstillingu. Ég sá að fólk hristi höfuðið og það var augljóst að það var enginn að bíða eftir Ulla Nilsen. Ekki veit ég hvað kom yfir mig þarna á þessu augnabliki, mig greip eitthvert óútskýranlegt æði svo ég stóð hálvegis á fætur og vinkaði til mannsins og gaf honum merki um að koma til mín. Hann smokraði sér á milli litlu kaffiborðanna, hálfbrosandi og andaði ótt og títt eins og hann væri móður. Ég sá að það var lítið útflúrað skjaldarmerki með gyllingu á brjóstvasa hvítu skyrtunnar sem hann klæddist undir ljósum jakkanum.

„Já?“ sagði hann. Hann horfði spyrjandi á mig.
Nú var það ég sem baðst fyrirgefningar. „Fyrirgefið, ég sé að ég hef verið of fljótur á mér. Ég er að bíða eftir Ulla Nilsen.“
„Nú já, það var gott að heyra. Ég var orðinn hræddur um að ég hefði villst inn á rangan veitingastað. Gott að hitta yður. Þá getum við gengið af stað. Eruð þér með farangur?“

Ég tók pjönkur mínar og fylgdi þessum kurteisa herramanni sem hraðaði sér út og upp götuna. Ég gekk í humátt á eftir honum og hló og flissaði með sjálfum mér. Hvaða vitleysu var ég nú að koma mér í? Hver var Ulla Nilsen? Ég var gripinn ótrúlegu kæruleysi, ég var bæði léttur og glaður. Nú ætlaði ég að hitta Ulla og sjá hvað það hafði í för með sér. (framhald síðar, ég þarf að standa upp)

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.