Ég held að nágrannar mínir hafi það á tilfinningunni að ég lifi of góðu lífi. Í gær var ég úti í garði að rífa upp stétt sem er hér við garðdyrnar. Þetta var puð og maður verður nokkuð þreyttur í bakinu á að bogra. En ég erfiðaði. Svo heyrði ég að nágranni minn Lars kom inn í garðinn til að virða fyrir sér framkvæmdirnar. Hann byrjaði á að dást að dugnaðinum í mér og spurði mig svo hvert verkefnið væri. Ég lýsti í stuttu máli að nú átti að planta berjatrjám þar sem stéttinn er nú.
“Noh, þetta hljómar eins og vinna í nokkrar helgar.”
“Já,” svara ég hugsandi.
“Það er gott,” segir hann. “Þú átt ekki að hafa það betra en við hinir.”
Það tók mig nokkrar sekúndur að skilja hvað hann átti við, minn góði nágranni Lars. Honum finnst ég hafa það gott. Betra en hann og þeir sem hann þekkir. Og það er sko ekkert til að skammast sín fyrir. Ég er herra lífs míns og mér tekst að gera líf mitt gott. Var niðurstaða mín.
Yo.
Þetta minnti mig á tímabil þegar ég deildi íbúð með Eiríki og Hrefnu tveimur ágætum sagnfræðingum sem ég kynntist í MH. Ég var rúmlega tvítugur og þriggja barna faðir og hafði nóg að gera. Um jól var mér var gefin bók, held að systir mín góð hafi fært mér bókina með titilinn: Elskaðu sjálfan þig. Ég las bókina með töluverðri athygli. Meginþráður bókarinnar var, eins og titillinn gefur til kynna, að maður eigi að elska sjálfan sig í stað þess að fylla lífið af sjálfsásökunum og hörðum sjálfsdómum. Í dag heitir þetta, sá ég á bókmenntavefsíðu sem ég las í morgun, self-compassion. Sjálfs-samúð. (“Samúð fær okkur til að horfa inn í hjarta okkar, uppgötva hvað fær okkur til að finna til.”)
Eftir lestur bókarinnar, Elskaðu sjálfan þig, gekk ég um og dásamaði sjálfan mig. (Bæði í gríni og alvöru). Sagði frægðarsögur og setti mig hvað eftir annað í gott ljós. Ég skynjaði að sjálfsögðu að sagnfræðingarnir tveir og sambýlingar mínir voru ekki allskostar ánægðir með þessa þróun. En ég hélt kampakátur áfram og lét ekki efasemdir þeirra trufla mig. Og hvað gerðist? Ég fann hvernig ég lyftist allur upp. Varð enn betri útgáfa af sjálfum mér. Svona Snæi minn, þú ert bara fínn.