Að hefja daginn með hjólaviðgerðum er upplífgandi. Reiðhjól hafa svo góðan og skýran mekkanisma og þegar manni tekst að láta hann snúast verður maður kampakátur. Og setjast að viðgerð lokinni upp á fákinn og finna að hann er bæði léttari og sterkari en fyrir viðgerð er ekta fín tilfinning. Hjólið hennar Sus var í skralli og á 30 mínútum tókst mér að láta tannhjólin snúast aftur og dekkin með. Yo.
Og svo er hátíðardagur í dag. Agla Söndrudóttir er 4 ára og af því tilefni er hátalarinn hér á skrifstofunni skrúfaður upp á hæsta stig og ég spila lag hinnar argentínsku Buika, Jodida Pero Contenta. Auðvitað ætti ég að vera á Íslandi í dag, koma fljúgandi inn í afmælisveisluna. En í stað þess á ég fund, langan fund, með bankafólki sem keyrir alla leið frá mið-Jótlandi til að ræða peningamál. Það er von á þremur bankamönnum. Allir eru þeir góðir menn, vilja mér vel og það er ekki nein uppgerð hjá þeim.
Í kvöld legg ég leið mína inn til Kaupmannahafnar. Sá frægi forleggjari Claus Clausen hjá Tiderne skifter hefur selt forlagið sitt til Gyldendal og nú ætlar hann smám saman að hætta. Hann er orðinn meira en 70 ára. Að heyra Claus tala um bókaútgáfu er eins og að heyra gamlan slagara frá 1970 á repeat. Í huga Claus er gamli tíminn betri en sá nýi og hann nennir ekki að vera með í bókaútgáfu eins og hún er stunduð árið 2017.
ég fyrir 6 árum