Ég tók sjónauka með mér í vinnuna í morgun. Sennilega af því mér hefur verið hugsað til Hannesar Péturssonar síðustu daga. Ég hef nefnilega USB lykil í vasanum þar sem ég geymi gamalt hljóðritað viðtal við hið aldraða skáld. Hann er maður sjónaukans hann Hannes.
Ég lagði kíkinn í gluggakistuna við gluggann sem snýr að brautarpallinum í morgun þegar ég kom til vinnu. Enginn var sjáanlegur útifyrir. Á meðan ég hitaði mér kaffi og beið eftir að tölvan snerist í gang virti ég þungan sjónaukann fyrir mér og leyfði mér að hlakka til að fá einhvern inn í sjónlínu.
Ég var því fljótur að bera kíkinn að augum þegar ég sá tónlistarmanninn svokallaða setjast niður á bekkinn á brautarpallinum andspænis skrifstofunni til að bíða eftir Kaupmannahafnarlestinni. Ég veit ekki hvort tónlistarmaðurinn er tónlistarmaður, ég þekki ekki manninn. Ég hef bara tekið eftir þessum einstaklingi á gangi um litla bæinn minn. Hann hefur viðkvæmnislegt yfirbagð, döpur augu og svo fínar hendur, maðurinn, að mér finnst líklegt að hann leiki á hljóðfæri. Af einhverjum ástæðum set ég hann í samband við óbó. Ég veitti eftirtekt að svart og hálfsítt hár hans hafði ekki verið þvegið í morgun og kannski ekki heldur í gær. Hann hallaði sér fram og rýndi ofan í krumpaðan pappír sem hann hélt á milli handanna. Þótt að sjónaukinn sé öflugur gat ég ekki greint hvers konar pappír maðurinn starði á. Sennilega er þetta eitthvað minnisblað þar sem hann hefur hripað niður erindi sín og ákveðið að hafa með sér í leiðangrinum til Kaupmannahafnar sér til halds og trausts.