Espergærde. Bankað á dyr

Í gær fékk ég heimsókn hingað á forlagið sem er til húsa við brautarpallinn í Espergærde. Það var ung kona sem heimsótti mig, afar fínleg og í nostursamlega völdum fötum. Hún var í alla staði fín.

Dyrnar að forlaginu er venjulega læstar þar sem oft og iðulega reyna lestarfarþegar að komast inn því þeir halda að skrifstofan sé biðsalur og aðgangur að klósetti sé almennur. Í  gær var sem sagt bankað á hinar læstu dyr. Fyrst létt og vegna þess að ég hélt að enn og aftur vildu ferðalangar  komast á klósett lét ég sem ekkert væri, svaraði ekki bankinu og hélt áfram vinnu minni. Þá var bankað aftur, nú fast og ákveðið. Ég stóð því á fætur og gekk út að dyrum. Ég var einn á skrifstofunni og úti var farið að rökkva enda klukkan að nálgast sex.

Unga konan sem stóð í dyrunum var fljót að rétta mér höndina og kynna sig.
„Sæll, ég heiti Júlía,“ sagði hún og horfði sposk á mig.
„Sæl, Snæbjörn heiti ég.“
„Fyrirgefðu að ég komi bara sisvona án þess að gera boð á undan mér…“„Komdu innfyrir,“ flýtti ég mér að segja og gaf henni merki að koma inn.
„Takk. Ég ætla ekkert að stoppa, bara segja eitt orð við þig. Ég veit vel hver þú ert. Ég fylgdist með þér þegar þú bjóst á Íslandi. Þú veist örugglega ekki hver ég er. Ég hef búið í mörg ár í útlöndum… Englandi, Spáni …“
„Nú já,“ sagði ég og horfði forvitin á þessa ungu konu. Þótt hún virkaði róleg skynjaði ég að hún var full af beislaðri orku.
„Ég er flutt… það er að segja tímabundið, til Danmerkur, og nú þarf ég að búa til eitthvað nýtt. Ég hef reynt margt og get margt en ég hef fyrst og fremst áhuga á listinni. Nú virkar þetta háfleygt en ég hef einlægan áhuga á list og ég er sannfærð um að skilningur á list og að vera þátttakandi í listaverki gerir fólk að betri manneskjum.“ Hún brosti vandræðalega og leit niður fyrir sig á meðan hún gerði hlé á máli sínu. „Æ, þetta er alltof bratt. Þú skilur auðvitað ekki hvað ég vil þér.“
„Nei, ekki enn.“
„Ég er vön að vinna með listhópum og oft hafa bókaforlög verið grunnurinn. Ég vinn þannig að ég kem mér fyrir á bókaforlagi eða inni í litlu leikhúsi, safna rétta fólkinu í kringum mig og svo byrjum við að vinna að verkefni sem gengur út á að gera lífið fallegt í kringum okkur. Ég nota músik, dans og leiklist sem ég set upp hvar sem er í bæjum. Á götuhorni, inni í verslun, á bensínstöð… Þetta er ekkert tilgerðarlegt rugl sem snertir engan. Þetta er alvara.“
„Já,“ sagði ég hikandi. „Ég er ekki viss um að ég sé rétti  samstarfsmaðurinn…“
„Jú, þú ert það. Má ég senda þér videó af því sem ég hef gert. Bara tvö eða þrjú vídeó frá síðasta ári í Valencia?“
„Jú jú, gerðu það.“
„Takk, ég tef þig ekki frekar en þú færð sendingu í kvöld. Við tölum saman.“
Svo gékk hún út án þess að líta um öxl. Mér fannst þetta frekar snubbótt heimsókn.

Í gækvöldi fékk ég sendinguna og þar sá ég hvernig hinni beisluðu orku var hleypt út í músik á götuhorni, á torgi og á kaffistétt. Þetta var ekkert rugl.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.