Espergærde. Í sjálfu sér

Mér varð hugsað til þess að sjaldan gerir maður eitthvað bara til að gera eitthvað. Allt hefur markmið. Ég hleyp til að komast í betra form, börnin mín gera heimaverkefni til að fá betri einkunnir, ég skrifa dagbók til að æfa mig í að skrifa á íslensku.

Ég get ekki bara hlaupið til að hlaupa, börnin mín læra ekki bara til að verða fróðari og ég skrifa ekki dagbók bara af því að mér finnst það gaman.

Mér varð hugsað til þessa þegar ég sagði við einn viðmælanda minn úr bókabransanum að sennilega kæmi ég ekki aftur á bókamessuna í Gautaborg, mér fyndist það einfaldlega ekki borga sig. Um leið og ég lét þessi orð út úr mér velti ég því fyrir mér hvað þyrfti til að ferðin til Gautaborgarbókamessunnar borgaði sig.

Í Gautaborg hitti ég margt skemmtilegt fólk sem ég vil halda sambandi við. Ég heyrði um nýjar bækur, að vísu er engin þeirra svo spennandi að ég íhuga að gefa út. Ég sá hvað sænsku forlögin eru að gefa út. Ég hitti Svante, ég hitti Thomas Mala, ég hitti Thomas Tebbe. Það var gaman. Er þetta ekki nóg? Eða getur maður bara hugsað þetta á annan veg: Var ekki bara fínt að vera í Gautaborg í tvo daga? Var það ekki bara fínt í sjálfu sér?

ps. Í gær komu bækur úr prentsmiðjunni, Alle tapre bliver tilgivet, Chris Cleave og Skruestikken, Flynn Berry. Yo.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.