Espergærde. Herradagar

Það eru herradagar hjá okkur drengjunum á Søbækvej. Sus er í Noregi og á meðan leyfum við herramennskunni að njóta sín. Ég veit ekki hvort hugtakið „herradagar“ vekur óhug hjá einhverjum. Ef ég passa mig ekki get ég verið sakaður um að upphefja karlkynið. En herradagar fela í sér að gera það sem okkur drengjunum, Núma, Davíð og mér, finnst gaman og ætli það sé ekki í lagi.

Í gær komu þær upp, hver á fætur annarri, hugmyndirnar að dagbókarskrifum. En í dag þegar ég sest niður við Kaktusinn man ég ekki hvað ég var að hugsa í gær. Sum augnablik á dagbókin hug minn allan; ég fæ hugmynd og hugsa „um þetta skrifa ég á morgun“.

Á þessum ótrúlega fallega haustdegi  ætla ég að mála tröppuganginn og mín bíða mörg verkefni bæði innanhúss og utan. Hér skín sólin af heiðbláum himni í gegnum regnvot trjálaufin. Það er  eins og þau séu prýdd skínandi demöntum.

ps. Í gær var sett nýtt lestrarmet á Kaktusnum. Einhver, staddur í Reykjavík, las 269 Kaktusfærslur í einni setu. Um þetta fékk ég tölvupóst í gærkvöldi frá wordpress, þ.e. þeim sem þróa þetta prógramm sem ég nota til að skrifa dagbókina.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.