Espergærde. Blýantsstubburinn

Haustið er yfir okkur. Haustrigningarnar byrjuðu í nótt. Ég lá undir hlýrri sænginni og hlustaði á myrkrið og heyrði þegar regnskýin læddust yfir landið. Fyrst barst lágt marr að utan og svo féll fyrsti dropinn. Dink. Svo næsti og svo helltust þeir niður, droparnir, í milljónatali ofan á þakið yfir mér. Nú er allt vott.

Ég kom óvenju snemma til vinnu í morgun og úti á brautarpallinum var múgur og margmenni. Fleiri en venjulega. Dökkklætt fólk á leið til vinnu inn til Kaupmannahafnar. Flestir hýmdu í hnapp undir regnhlífum til að verjast regninu.

Ég tók sjónaukann  í gluggakistunni og bar hann upp að augum. Í kíkinum sá ég ungan dreng, ekki enn kominn á unglingsár, sem stóð í gulri úlpu fremst í mannþrönginni. Hann hafði hettu yfir höfðinu og virtist einn á ferð. Skyndilega kom maður hálfhlaupandi eftir brautarpallinum í átt að miðasölunni. Hann hafði harða tösku í hægri hendi. Í sömu mund og maðurinn hljóp framhjá unga drengnum steig hann fram og þeir rekast hvor á annann. Taskan hentist upp í loft og skall á stéttinni. Við höggið opnaðist taskan og skjöl og ritföng  dreifðust um brautarpallinn. Úlpuklæddur pilturinn afsakaði sig greinilega og beygði sig niður til að hjálpa manninum að setja hlutina upp í töskuna á nýjan leik. Maðurinn lokaði töskunni, hljóp aftur af stað og strákurinn horfði á eftir honum. Honum varð litið niður fyrir sig og beygði sig svo niður og tók eitthvað upp. Ég stillti skerpuna á sjónaukanum og sá að þetta var gulur blýantsstubbur, ekki lengri en 5 cm. Drengurinn hljóp af stað með blýantsstubbinn í hendinni á eftir manninum.

Þetta er efnilegur piltur, hugsaði ég. Hann er trúr yfir litlu og verður yfir mikið settur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.