Espergærde. Uppörvun

Þegar ég gekk inn í skrifstofubygginguna fann ég hvað það var kalt inni. Enginn mættur, ég var fyrstur í dag. Ég var móður eftir hjólatúrinn að heiman, enda hjólaði ég eins hratt og ég gat. Eitt andartak kastaði ég mæðinni í anddyrinu. Gamla útihurðin lokaðist með háum hvelli á bak við mig og ég gekk inn í rökkvaðan biðsalinn sem við notum bæði til að borða hádegismat saman og til að halda fundi. Ofnarnir voru kaldir svo ég skrúfaði upp hitann. Lagfærði stól sem var kominn út í horn og setti lokið á saltkarið á borðinu. Kaffivélin mændi á mig vonaraugum, ég horfði á móti, kveikti svo á vélinni og undirbjó uppáhellinguna. Fljótlega ilmaði skrifstofan af mjúkum kaffiilmi. Setti Nick Cave á fóninn. Söngvar hans höfðu ómað í höfðinu á mér allan morguninn. Nú hóf ástralski söngvarinn sjálfur upp raust sína. Mér létti. Ég settist í gluggakistuna á meðan ég beið eftir að kaffinu. Sjónaukinn lá á sínum stað. Út um gluggann svipaðist ég um á sólbjörtum brautarpallinum, en þar var var enginn sjánlegur enda lestin nýfarin inn til Kaupmannahafnar.

Ég var sjálfur inni í höfuðstaðnum í gærkvöldi. Fyrrum forstjóri Gyldendal-bókaklúbbsins, Tina, bauð okkur að borða kvöldmat með sér og manni sínum og tveimur öðrum gestum í gær. Við þekkjum Tinu ekkert sérlega vel; höfum auðvitað margoft hitt hana undir formlegum og óformlegum kringumstæðum eins og aðra í þessum litla bransa okkar. Hún vildi heyra um ferð okkar og hvernig það væri að taka næstum eitt ár úr lífi sínu til að ferðast, gera eitthvað annað en maður gerir venjulega. Henni fannst það inspirerandi að einhver hefði kjark til þessa. Og um það vildi hún heyra.

Mér fannst þetta gott framtak hjá henni að leita aktívt að inspiration. Hér í Danmörku eru ekki margir sem ég þekki sem eru líklegir til að vera uppspretta nýrra hugmynda hjá mér. Ég sakna þess að hitta uppörvandi fólk. Uppörvun. Gott orð. Ég ætti að vera duglegri að vinna í því að sækja uppörvun.

dagbók

Skildu eftir svar