Espergærde. Spæjararnir

Mér hefur verið bent á að hér í Espergærde sé starfandi einkaspæjarafyrirtæki, að sögn það stærsta og besta í landinu. Allt er leynilegt í kringum starfsemina og heimilsfang er hvergi gefið upp. Spæjararnir sem þar starfa taka bæði að sér rannsóknir á fyrirtækjum og rannsóknir fyrir einkaaðila. Það var nágranni minn sem er fasteingasali sem sagði mér frá fyrirtækinu og hvar í bænum það væri til húsa. Allt frá því að ég las Glerborg Paul Auster hef ég verið heillaður af einkaspæjurum og starfsemi þeirra. Ég hef lengi íhugað að heimsækja þessa einkaspæjara.

Í gær rétt upp úr klukkan tvö fékk ég skyndilega þá hugdettu að hjóla þangað sem fyrirtækið hýsir starfsemi sína. Ég sat hér á skrifstofunni og bjó til banner fyrir eina af þeim bókum sem við gefum út og svo var það algerlega upp úr þurru sem ég bara stóð upp, án þess að hafa hugsað neitt sérstakt, og ákvað að hjóla af stað.

Það eru fáir á ferli hér í bænum á þessum tíma dags. Aldrei þessu vant var hálfhvasst og af einhverjum ástæðum þyrluðust síður úr gömlum dagblöðum allt í kringum mig þegar ég hjólaði upp eina af fáfarnari götum bæjarins þar sem einkaspæjararnir eiga að vera til húsa. Það tók mig bara rúmar fimm mínútur að hjóla að spæjarabyggingunni. Húsið í sjálfu sér kom mér á óvart. Þetta var sannkallað herrasetur. Gömul, hvítmáluð bygging á þremur hæðum með rauðu tígulsteinsþaki. Umhverfis húsið var bæði há girðing og þéttir trjárunnar. Stórt járnhlið hindraði aðgang að útdyrunum. Á steyptum stólpa við hliðið var festur stór, gylltur skjöldur og í hann var grafið bókstafirnir IKD inn í einskonar hnött. Ekkert annað. Útihurðirnar að húsinu voru augljóslega smíðaðar úr þykkri eik, glæsilegar voru þær,  og  að minnsta kosti 3,5 metra háar. Allt var mjög virðulegt.

Ég ákvað að hinkra og sjá hvort ég yrði var við einhverjar mannaferðir við húsið og settist því í rokinu á seinvegg nokkuð frá innganginum. Ég harmaði það mjög að hafa ekki tekið sjónaukann með. Þannig hefði ég kannski getað séð inn um glugga hússins. Ég hafði örugglega beðið í meira en tuttugu mínútur, bægt frá mér fljúgandi síðum úr dagblöðum, þegar ég loks varð var við eitthvað líf. Bílskúrsdyr við hlið hússins opnuðust af sjálfu sér og skömmu síðar bakkaði gljándi, hvítur Jagúarbíll út. Ekki gat ég greint hver sat við stýri eða hvort ökumaður hefði farþega með sér. Bæði var ég of langt frá og þar að auki voru rúður bílsins skyggðar. Bíllinn ók virðulega í gegnum járnhliðið en jafnskjótt og Jagúarinn kom út á akveginn jók ökumaðurinn skyndilega hraðann svo að það vældi í dekkjunum. Síðan hvarf bíllinn, hliðið lokaðist og það eina sem bærðist voru greinar trjánna og dagblöðin sem drógust eins og hali inn í vindsogið af Jagúarnum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.