Espergærde. Afneitun við fyrsta hanagal

Í gær barst mér tölvupóstur frá góðum vini mínum, sem æði langt er síðan ég hef heyrt í. Hann tíundar í löngu og góðu bréfi fréttir af sér og sínum. Í lok póstsins, í kankvísri neðanmálssetningu, sagði hann mér að ég hefði aldeilis valdið usla hjá menningarelítunni í Reykjavík með skrifum mínum um Elenu Ferrante í sumar. Svo miklum óróa að ungur fræðimaður í New York hafi  fundið sig knúinn til skrifað um það sem ég hafði skrifað um Ferrante, og það á svo sannfærandi hátt að sjálfur Guðmundur Andri Thorsson hafi afneitað mér. “Ég bar blak af Snæa þarna á síðunni hennar Þorgerðar, sem var náttúrlega svona sjálfvirkt bræðralagsviðbragð og vanhugsað,” á Guðmundur Andri að hafa sagt og vísar í, að mér skilst, Facebooksíðu Þorgerðar E. Sigurðardóttur. Ég verð að viðurkenna að ég hef hvorki lesið skrif fræðimannsins né síðu Þorgerðar.

Mér brá nú töluvert við þessar upplýsingar vinar míns. Í fyrsta lagi vegna þess að mér kemur á óvart að ég hafi valdið þvílíku uppnámið. Í sumar hafði ég  heyrt utan af mér um þennan óróa. En nennti ekki að eyða tíma í að spekúlera í því þá. Ég held að þessi meinta ólga hljóti að byggjast á einhverjum misskilningi. Hvað sagði ég um Ferrante? Ups! Sagði ég enn og aftur einhverja bölvaða vitleysu? Eitthvað í þá átt að bækur hennar höfðuðu frekar til kvenna en karla. (Mér finnst það liggja í augum uppi og ekkert til að æsa sig yfir. Eða má maður ekki segja slíkt? Æ, ég veit ekki. Ég er félagslega fatlaður þegar kemur að slíku.) Hitt var verra að sjálfur Guðmundur Andri, maður sem ég hef dásamað árum saman, skuli afneita mér. Var glæpur minn svo stór? Ó, nei, ég hlýt að hafa sagt eitthvað hræðilegt. Veit Guðmundur Andri um hvað hann er að tala, um hvað fræðimaðurinn var að tala og um hvað ég var að tala?  Ég ætla ekki að fást frekar um þetta, engin ástæða að eyða orku í þetta. Mér er næg huggun í að vita að ég á vini sem mundu ekki afneita mér þótt þeim væri hótað pyntingum og limlestingum, sýru og sjóðandi vatni. Yo.

Nú fer ég út í garð og moka mold. Ég er góður í að moka og góður að bera þunga hluti, langt. Þar liggur minn styrkur.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.