Espergærde. Að grafa upp

Tuttugu dagar í röð. Það er nýtt met. Í tuttugu daga í röð hef ég skrifað inn í kaktusdagbókina. En í gær var önnur röð,  röð atvika, sem kom í veg fyrir að ég skrifaði tuttugasta og fyrsta daginn. Í gær var ég upptekinn af þrennu: að leika spæjara, að moka og að bera þunga steina. Verkefni gærdagsins frá því snemma í gærmorgun fram á kvöld var að endurskipuleggja garðinn. Nú set ég inn mynd sem sýnir stöðuna í gær.

img_8488
Hið stóra garðverkefni

Hitt verkefnið var lítið spæjaraverkefni sem ég fékk frá Íslandi. Í hléum frá að flytja grjót reyndi ég að grafa upp verustaði tveggja Dana. Það eina sem ég hafði í höndunum eru tvö nöfn. Annað mjög sérkennilegt og sennilega er manneskjan sem ég leita að sú eina í Danmörku sem heitir þessu nafni. Hinn einstaklingurinn er karlmaður sem ber ekki alveg jafn sérkennilegt nafn. Ég hef fundið að minnsta kosti þrjá sem heita því nafni. Nú hafa mér líka áskotnast tvö símanúmer. En því miður lætur árangurinn á sér standa. Frá því á fimmtudag hef ég hringt látlaust í þessi tvö símanúmer en enginn svarar. Ég er eiginlega búinn að gefast upp á að ná símsamband við fólkið. Nú reyni ég nútímalegri spæjaraaðferðir, gps, hleranir, tölvuhökkun og faldar myndavélar.

ps. Dreymdi í nótt að ég hefði skrifað bók og Páll Valsson hjá Bjarti hafði ákveðið að gefa hana út. Ég man að á fyrstu síðu handritsins var listi yfir þær fisktegundir sem maður gat keypt hjá konunni í afgreiðslu sundlaugarinnar í bænum sem bókin fjallaði um.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.