Það var stór dagur í gær þegar ég keypti flugmiðann til Parísar. Ég á erindi, brýnt erindi, til Frakklands í nóvember. Mitt litla leyniverkefni mjakaðst að minnsta kosti einn þumlung í rétta átt þegar dagarnir í París voru fastnegldir. Ég hlakka mikið til og ferðin skerpir líka undirbúninginn hér í Danmörku næstu vikur.

Í gær var ég í þrjár klukkustundir, eftir að ég kom heim úr vinnu, ofan í skurði að moka . Mitt stóra garðverkefni þokast líka áfram. Ég held að ég hafi að minnsta kosti flutt 8 kúbikmetra af möl og mold úr garði og út á bílaplan. Nú þarf ég bara að fá lánaða kerru og bíl með krók til að keyra allan þennan haug í burtu. Þegar ég ek með þunghlaðna aftaníkerru verð ég ekta garðmaður.