Espergærde. Lambakótelettur í morgunmat

Ég hlakkaði mikið til að koma á skrifstofuna í morgun, enda hafði ég tvær lambakótelettur frá kvöldmatnum í gær í farteskinu. Ég var búinn að sjá sjálfan mig fyrir mér í allan morgun einan á skrifstofunni með Nick Cave á fóninum, ilmandi, rjúkandi espresso og narta í kóteletturnar.

Ég borðaði nefnilega ekki heima í gærkvöldi. Ég var úti á fótboltavelli að spila á móti nágrannabænum Tikøb í gær (við unnum 2-0). Eftir leikinn var ákveðið að fótboltaliðið borðaði saman í kaffiteríunni í klúbbhúsinu. Hakkebøf með lauk, kartöflum, brúnni sósu og sögur af hjónaskilnuðum. Ég gat því ekki borðað þessar fínu lambakótelettur í gær þegar ég kom heim.

Og nú sit ég hér, enn á skrifstofunni. Eins og ég hafði lofað sjálfum mér setti ég Cave á fóninn. Þegar ég lít út um gluggan er eins og allir hafi yfirgefið bæinn því hér fyrir utan er ekki sálu að sjá. Fyrir framan mig á skrifborðinu er minnisblað (sjá mynd) frá spæjarvinnu minni. Í gær, eftir töluvert basl, hafði ég uppi á manninum sem ég hef leitað að síðustu daga. Mér var í sannleika sagt  létt þegar ég gat hringt í vin minn og sagt honum að ég hefði leyst verkefnið sem hann bað mig um að inna af hendi. Hann á það inni hjá mér að ég standi mig þegar kallið kemur.

Byrjaði að lesa óútkomna bók Sigríðar Hagalín í nótt, EYLAND. Bókin kemur mér á óvart. Mér finnst hún skrifa skemmtilega, Sigríður. Hún hefur gott auga fyrir smáatriðum sem gæðir textann lífi. Ég hlakka til að lesa áfram.

minnisblad
Minnisblad frá spæjaravinnu

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.