Espergærde. Að hlægileggera

Það setti að mér nokkurn óhug þegar mér barst tölvupóstur í gær frá ókunnri persónu sem skrifaði mér á íslensku. Tölvupóstfang sendanda þekkti ég ekki en það var greinileg að netfangið var ekki ætlað að vekja upp bjartsýni: bodullinn.fra.sanda@… Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á hvað maðurinn vildi mér, hugsunin í skrifunum var svo óskýr. En svo virtist sem ritari tölvupóstsins væri ósammála skrifum mínum hér á kaktusnum eða væri svo ósáttur við þær lýsingar á líferni mínu sem hér birtast, að ég gat ekki annað lesið úr skrifum hans að hann ógnaði mér. “Að hlægileggera virtustu rithöfunda landsins er ekki til að þola,” er ein af þeim undarlegu setningum sem tölvupósturinn innihélt. Ég vona að ég geri ekki lítið úr höfundi tölvupóstsins, en ég hafði á tilfinningunni að bréfið eða hluti þess væri ritað með hjálp Google. Og ég vona heldur ekki að ég móðgi viðkomandi með því að segja að mig gruni að einhver spéfugl sé að stríða mér.

Í gær fengum við heimsókn frá Indlandi. Indverskur bókaútgefandi frá HarperCollins ætlar að dvelja hjá okkur næstu daga á meðan hún kynnir sér Kaupmannahöfn og danska menningu. Þetta er glöð, ung stúlka (hún sagði okkur í gær að hún yrði þrítug á laugardaginn) sem Sus kynntist á fellowship-viku í Frankfurt fyrir fjórum árum. Hún er í alla staði þægileg í viðmóti. Það versta (í mínum huga) er að hún er grænmetisæta í hinum stranga skilningi. Ekkert kjöt, enginn fiskur, engin egg, koma inn fyrir varir hennar. Við aðlögum matseldina að þörfum hennar og töfrum fram einhverja grænmetisrétti. Merkileg árátta að maður, (með merkimiðann víðsýnn og skilningsríkur) aðlagar sig alltaf að minnihlutahópum. Ef ég sem kjötæta í hinum stranga skilningi kem sem gestur í hús grænmetisfólks vænti ég ekki að eldað sé kjöt handa mér og það mundi sennilega ekki gerast. Afturámóti hef ég oft orðið vitni að því að gestgjafi eldar jafnvel tvöfalda máltíð (eina grænmetis og eina kjöt) ef grænmetisæta kemur sem gestur. Ég hef ekkert á móti grænmetisætum, dáist jafnvel að hinu holla líferni,  en stundum er einhver heilagleiki yfir því að vera grænmetisæta. Ég man að ég borðaði einu sinni á veitingastaðnum Á næstu grösum sem var á annarri hæð á horni Klappastígs og Laugavegs (og er kannski enn). Þá var veitingastaðurinn á vegum Náttúrulækningafélagsins (og er kannski enn). Stemmningin var svo heilög þar að fólk talaði saman í lágum hljóðum yfir matnum, hvíslaði, eins og inni í kirkju. Sem sagt grænmeti á boðstólum hér í Espergærde næstu daga. Yo!

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.