Horsens. Um einbeitingu

Það er grár morgun. Ósköp venjulegur morgunn. Ég sit við borð mitt. Það er bankað á dyr. Ég er langt niður í vélarrúmi minna eigin hugsana. Ég stend hikandi á fætur til að opna. Sú hugsun sem ég hafði fengið tak á, og nánast gripið, er horfin. Sköpun krefst einveru, einbeitingar og þolir ekki truflun. Enginn má horfa yfir öxlina á mér. Einrúm – staður þar sem maður getur gengið um gólf, krotað hjá sér, strokað út og krotað áfram.

Ósjaldan kemur truflunin þó ekki að utan heldur frá manni sjálfum. Það eru hróp og köll að innan. Og hvert er erindið? Ó, já þú verður að muna að svara fyrirspurn frá hinum eða þessum. Stefnumót og óleyst verkefni. Auðvitað bregst maður við þessum köllum. Síðan snýr maður sér aftur þangað sem maður var og finnur að sú hugmynd sem maður taldi sig hafa fasta í hendi er flogin og horfin inn í mistrið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.