Espergærde. 4000 vikur

Sennilega tilheyri ég fyrstu kynslóð þeirra sem finnst eðlilegt að ráðfæra sig við sálfræðing. Eiga vandamál og tala um þau við faglærðan aðila. Og sennilega er þessi sama kynslóð sú fyrsta sem telur foreldra sína helstu upptök sálarkvala sinna. Ég veit að foreldrum mínum hefði aldrei dottið í hug að álíta foreldra sína undrrót einhvers persónulegs vanda. Sú kynslóð hafði aðra afstöðu til eigin ábyrgðar. Maður er sinnar gæfu smiður.

Þetta var nú það sem kom í hugann á hjólatúrnum í vinnuna í morgun. Ég hef ekki verið á skrifstofunni frá því á þriðjudag, daginn sem við lögðum af stað til bókamessunnar í Frankfurt. Frankfurtdagarnir voru í sjálfu sér ágætir. Ekki hitti ég marga Íslendinga (sem er ekki markmið í sjálfu sér, hvorki að hitta eða ekki hitta), þó urðu Egill Jóhannesson, Heiðar Ingi, Agla Magnúsdóttir, María Rán og Hrefna Haraldsdóttir á vegi mínum. Þeim var tíðrætt um að ég hefði móðgað einn úr íslenskri útgefendastétt með skrifum mínum á Kaktusnum. Ég kom af fjöllum.

Eitt lærði ég á bókamessunni í Frankfurt af samtali mínu við norska útgefandann hjá Press forlag í Noregi: að nýta tíma sinn. Það hefur aldeilis hvatt mig til dáða um helgina. Ég hef nýtt tímann til hins ítrasta. Ekkert hangs yfir einskisverðum fótboltaleik, ekkert hangs yfir einskisverðum tíðindum, ekkert hangs yfir einskisverðum hlutum. Ég hef verið topfókuseraður. Unnið frá morgni til kvölds við að klára garðverkefnið stóra til að komast í aðra mikilvæga hluti. Á kvöldin hef ég lesið handrit sem mér áskotnuðust í Frankfurt og afgreitt 3 bækur. Sú fjórða sem ég les nú lofar góðu. Og svo allt hitt sem mér hefur tekist að nota dýrmæta tíma minn til. Maður lifir bara í 4000 vikur.

Einar Falur, minn góði félagi, á afmæli í dag. Ég hefði viljað vera með þegar honum var afhent afmælisgjöf í gærmorgun undir Tom Waits söng nokkurra laglausra manna við harmónikkuundirleik Eiríks Guðmundssonar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.