Espergærde. Hin félagslega hneisa

Á mínum fína, svarta fáki brunaði ég eftir regnvotum götum Espergærdes og hugsaði með mér. „Að hafa ekki skoðun er í dag félagsleg hneisa. Það freistast þess vegna margir til að mynda sér „skoðun“ byggða á yfirborðslegum tilfinningum eða svokölluðum hugdettum.“ Þetta hugsaði ég. Hjólaði áfram og til að rjúfa þögnina sem var inni í mér og allt um kring, hafði ég framhald á samtalinu mínu við sjálfan mig. „Fyrir kemur að við fáum skoðanir annarra að láni án þess að gefa okkur tíma til að spekúlera og sannfærast. Og höldum fast í þessa skoðun, ríghöldum í þetta flotholt svo við drukknum ekki í hinum félagslega ólgusjó. Já,“ hugsaði ég. „Það er hjákátlegt og óviðeigandi að segja: „ég veit það ekki“ ef maður er spurður um skoðun sína á einhverju.  Er ekki bara betri tilfinning að skilja en að hafa rétt fyrir sér – þó að það þýði að maður skipti um skoðun um mikilvægt efni, jafnvel á heilli hugmyndafræði eða á sjálfum sér?“

Ég hélt áfram þar sem frá var horfið í gær. Ákafi minn til að nýta tímann, láta ekkert stoppa mig, var svo mikill að ég var tvisvar sinnum stoppaður af löggunni. Um leið og ég kom heim úr vinnu skipti ég um föt, svo hratt að ókunnugir gætu haldið að lífið lægi við. Svo hljóp ég út og byrjaði að moka möl og sand upp á aftaníkerru sem ég fékk lánaða hjá duglega manninum, nágranna mínum. Ég hafði fengið bílinn hans Lars , míns góða nágranna, því hann hefur krók til að draga kerrur aftan á bílnum sínum. Þegar ég hafði lokið við að moka upp á kerruna þaut ég af stað út til Skipstrup (15 km leið) þar sem maður getur losað sig við úrgangsefni og afganga af öllu tagi. Brautin til Skipstrup er bein og breið. Ég var kominn drjúgan spöl þegar  ég tók eftir mótorhjóli á baksýnisspeglinum en áttaði mig ekki á að þetta var löggumótorhjól fyrr en blá blikkljós lýstu inn í bílinn.

Ég opnaði bílgluggann og horfðist í augu við alvarlegan lögreglumann sem í hægðum sínum tók svarta hanska af höndunum.
„Ökuskírteini,“ sagði lögreglumaðurinn og stakk höfðinu inn um bílgluggann. Skyndilega fann ég hvernig ég hitnaði í andlitinu, ég var viss um að ég hefði gleymt veskinu í buxnavasanum þegar ég skipti um föt og þarmeð ökuskírteininu. Ég gramsaði örvæntingarfullt í vösum mínum en kom svo auga á veskið mitt sem ég hafði lagt í farþegasætið. Ég rétti lögreglumanninum ökuskírteinið sem hann grandskoðaði. Það tók hann ótrúlega langan tíma að gera úttekt á  ökuskírteininu mínu. Það er samt danskt. Eftir langa mæðu rétti hann mér skírteinið aftur og gekk hring umhverfis bílinn.
„Þú veist að samkvæmt lögum um aftanívagna er hámarksvigt á kerruhlassi 325 kg?“
„Þessa setningu verður þú að endurtaka,“ sagði ég og brosti til lögreglumannsins.
„Hvaðan kemurðu?“
„Esbjerg,“ sagði ég. Þeir sem búa á vesturströnd Danmerkur eru þekktir fyrir að tala illskiljanlega dönsku.
„Esbjerg?“
Ég þagði og lögreglumaðurinn horfði rannsakandi á mig.
„Nei, ég er bara að grínast. Ég kem frá Íslandi.“
Lögreglumanninum fannst þetta augljóslega ekki fyndið. „Ég spurði hvort þú þekktir lögin um hámarksþyngd aftanívagna?“
„Umm, nei ég held ég þekki þau ekki. Ekki alveg.“
Lögreglumaðurinn svaraði engu en sagði svo stuttur í spuna: „Áfram!“ og snerist á hæli og settist á mótorhjólið sitt. Ég skildi ekki hvað hann var að hugsa. En ég ákvað bara að halda ferð minni áfram. Áfram úr hans munni hlaut að þýða að ég ætti að bara að keyra á áfangastað.

Og ég ók áfram með aftanívagninn, sem ég vissi ekki hvað var þungur og hversu þungur hann mætti vera. Fyrir aftan mig keyrði löggumótorhjólið. Ég hægði ferðina og vonaði að hann tæki fram úr en löggan hægði bara líka ferðina og þegar ég beygði, beygði hann líka. Það var ekki um annað að ræða en að keyra til Skipstrup. Lögreglumaðurinn keyrði á eftir mér. Hann var að taka mig af taugum þessi lögga.

Ég beygði inn á sorpstöðina í Skipstrup og þar beið mín aldeilis óvænt sýn. Lögreglubíll með blikkandi ljós og tveir lögreglumenn stóðu mitt út á vegnum og gáfu mér merki um að nema staðar. Nú var ég hlessa. Hvað hafði ég eiginlega gert?

„Viltu vera svo vænn að bakka hingað upp á vigtina,“ sagði lögreglumaðurinn sem hafði stöðvað mig og benti á stóra bílvigt úti í horni. Það voru bílar allt í kringum þessa vigt og girðing á vinstri hönd. Ég hef aldrei fyrr keyrt með aftanívagn og aldrei bakkað. Bara fylgst með og skemmt mér, eins og aðrir plebbar, þegar aðrir bakka með kerru. Átti ég nú að bakka hundrað metra milli bíla og framhjá grindverki. Ég setti í bakkgír og keyrði löturhægt af stað. Allt virtist ætla að ganga að óskum. Kerran tók beinu brautina í átt að vigtinni eins og ég hafði vonað. Að bakka með kerru var auðveldara en ég hafði haldið, eða þar til kerran fékk skyndilega sitt eigið líf og byrjaði að beygja í vitlausa átt. Ég stoppaði bílinn og keyrði áfram til að rétta vagninn af. Bakkaði. Enn tók kerran ranga beygju og stefndi nú beinustu leið inn í svartan Benzbíl.  Ég stoppaði aftur og keyrði áfram.

Nú var bankað harkalega á bílrúðuna. Ég leit upp og sá vin minn mótohjólalögguna með andlitið klesst upp að hliðarrúðunni. Í andlitinu mátti bæði sjá mikla gremju og óþolinmæði. Hann gaf mér merki um að opna dyrnar, sem ég og gerði. „Út!“ hrópaði hann og togaði mig hálfvegis út úr bílnum og ýtti mér frá. Síðan settist hann sjálfur undir stýri og bakkaði fimlega upp á vigtina þar sem hinir tveir lögregluþjónarnir biðu. Ég stóð kyrr í sömu sporum og var farinn að hafa miklar áhyggjur af þessu vigtarmáli.

Ég fékk bendingu um að koma. Ég hlýddi. Einn þriggja lögreglumannanna stóð við einskonar skjáborð og ég sá að kílóatalan stóð á skerminum. 837 kg. Hafði ekki löggan talað um 325 kg. hámarksvigt?
„Eins og þú sérð ertu með ólöglega þungt hlass á kerrunni. Samkvæmt lögum ber mér skylda til að sekta þig um 5000 DKK og veita þér áminningu sem gefur þér mínuspunkta.“
„5000 danskar krónur? Þetta er í fyrsta sinn sem ég keyri aftanívagn. Sekt í fyrstu tilraun.“ Ég var gersamlega miður mín. Ég veit ekki hvað þessi ágæti lögreglumaður sá þegar hann virti mig fyrir sér. Hann gekk til mín og rétti mér höndina. Ég tók í hönd hans og svona stóðum við í nokkrar sekúndur og svo sagði hann.
„Næst þegar þú keyrir með kerru skaltu passa að hún sé ekki þyngri en 325 kg.“ Svo sleppti hann handtakinu og gaf hinum lögregluþjónunum bendingu um að koma.

dagbók

2 athugasemdir við “Espergærde. Hin félagslega hneisa

  1. “Allar skoðanir skal endurmeta um leið og ný viðhorf myndast.” – Vigdís Finnbogadóttir (Páll Valsson, 2009. Bls. 230–231).

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.