Michael Danaher var í gær dæmdur sekur um morð á bóksalanum Adrian Greenwood. Ástæða drápsins, samkvæmt rannsóknargögnum, er girnd morðingjans í fyrstu útgáfu bókarinn Wind in the Willows eða Þytur í laufi.
Morðinginn á að hafa framið morðið sem hluta af áætlun sinni um að komast yfir hina sjaldgæfu bók. Bóksalinn hafði einmitt sett bókina til sölu á eBay fyrir 50.000 pund (eða 7.000.000 isk.). Greenwood bóksali lést af völdum 33 stungusára. Illvirkinn, Michael, neitaði sök og segir að um sjálfsvörn hefði verið að ræða. Þeir höfðu hist í bókabúðinni til að spjalla um bækur en umræðan hefði endað á þennan sorglega hátt. Michael var dæmdur til að sitja 34 ár í fangelsi. Nú hugsaði ég með mér: Var bókin, Þytur í laufi, fyrsta útgáfa, Michael morðingja svona mikilvæg eða var það vonin um væna fúlgu fjár sem olli æði hans? Það verða aðrir að meta. En ég veit að í sumra augum eru bækur aldeilis mikilvægar og í annarra augum eru peningar jafnvel mikilvægari en góðar bækur.
Það er greinilegt haust í lofti. Hvítar andgufur liðu úr munni mér þegar ég brunaði áfram eftir götum bæjarins á mínum svarta fáki. Nú er ég með nýjan búnað. Ég hef fengið öryggishjálm af nýjustu gerð og setti hann upp í fyrsta sinn í dag. Höfding heitir hjálmurinn sem er í raun ekki hjálmur heldur trefill um hálsinn. Í treflinum eru tugir skynjara og ef ég dett skýtur þessi svarti trefill loftpúða utan um hausinn á mér. Þessi búnaður er sagður 3 sinnum öruggari en venjulegur hjólahjálmur. Já.
Í gær hélt ég áfram garðverkefni mínu. Ég er langt kominn með að hækka moldarbeðin upp í sömu hæð og nýji trépallurinn. Mér finnst bara notalegt að vesenast við garðverk, moka mold og keyra hjólbörur. Í garðinum er næði og friður. Lykt af blautri jörð.
Það er ekki tilviljun að ég segi sögu bóksalans og morðingja hans. Sagan um viðskipti þessara tveggja manna leituðu á hugann á meðan ég ók hjólbörunum fram og til baka. Síðustu vikur hefur mér nefnilega verið tíðhugsað um stöðu bókaútgáfu, hvernig útgáfa bóka er að þróast og hvort bækur hafa lengur almenna þýðingu fyrir fólk. Þegar ég byrjaði að gefa út bækur á Íslandi voru þýdd bókmenntaverk mjög í hávegum höfð. Rússnesku stórvirkin voru gefin út, sum í endurútgáfu og önnur í nýjum þýðingum. Suður ameríska töfraraunsæið var það heitasta á tímabili, Isabella Allende. Svart á hvítu forlagið gaf út margar spennandi þýðingar, meðal annars Nafn rósarinnar. Forlagið í forystu Jóhanns Páls var stofnað niður á Ægisgötu. Þar var í upphafi lögð höfuðáhersla á þýddar bókmenntir. Það fannst mér spennandi útgáfa. Það var klassi yfir Forlaginu, þar til það dó.
Í dag er eiginlega ekki lengur mögulegt að gefa út þýdda bók á Íslandi (eða kannski hvergi), nema það sé einhvers konar metsölubók og þá í ódýrri útgáfu. Hér í Danmörku er eiginlega ógerlegt að gefa út þýdd bókmenntaverk. Þau seljast ekki. Mjög fáar bækur seljast. Nær eingöngu glæpasögur og þá oftast í flokki (sama höfuðpersóna í mörgum bókum). Hvað gerir maður þá? Í augnablikinu fylgjum við straumnum, reynum að gefa út það sem fólk hefur áhuga á og eitt og eitt bókmenntaverk. Maður verður hálfniðurdreginn þegar maður sér hvað áhuginn er lítill. Mjög fáir ritdómar og dræm sala. Það eru glæpasögurnar sem seljast í bílförmum. Og svo kemur ný Dan Brownbók út næsta haust. Það er að minnsta kosti smáfjör í kringum það.