J. K. Rowling, Dan Brown, Gillian Flynn og fleiri frægir höfundar þekkja hvað það getur verið mikil þrautarganga að eiga við útgefendur. Öll fengu þau marg-höfnun á handritum sínum að hinum stóru metsölubókum áður en þær rötuðu til áhugasamra útgefenda.
Árið 1797, í nóvember, sendi presturinn George Austin skáldsöguhandrit dóttur sinnar, Jane, til hins þekkta útgáfufyrirtækis Cadell & Davies. Ekki leið svo óralangur tími þar til George fékk svar frá forleggjarnum Thomas Cadell, skrifað á fremstu síðu handritisins: „Sent til baka með pósti. Þar með hafnað.“ Handritið að skáldsögunni Hroki og hleypidómar lá eftir þessi fyrstu viðbrögð heimsins óhreyft á skrifborði Jane Austin í 16 ár eða fram til ársins 1813 þegar bókin kom fyrst út.
Um þetta hugsaði ég í morgun á meðan ég undirbjó morgunmatinn fyrir fjölskylduna. Ég er alltaf fyrstur á fætur; kominn niður klukkan 6:25 og eftir stutta sturtuferð er ég klár. Á þessum tíma ársins er algert svartamyrkur þegar ég geng út eftir baðið, næ í morgunblaðið í póstkassann og tíni nokkur mintulauf (hér má maður víst bæði skrifa minta og mynta) út í blómabeði. Mintuna nota ég í sérstakan morgunrétt sem ég galdra fram hvern morgun; skyr, bananar, mynta, ólífuolía, frosnir ávextir eða ber (oft jarðaber, bláber, ananas eða pera). Allt er þetta hrært saman í sterkri blöndunarvél sem hakkar hina frosnu ávexti saman við skyr og banana (einhver kallaði þennan rétt smoothy, en ég veit ekki hvort það sé réttnefni).
Ég hugaði um þennan feril handrita þar sem ég hef sjálfur hafnað mörgum handritum (og ekki alltaf jafnglæsilega) og svo hef verið í sambandi við gamlan kunningja frá Íslandi sem dundar sér við þýðingar og les stundum prófarkir meðfram daglaunastarfi sínu. Kunningi minn hefur aldrei verið sérstaklega framhleypinn, hefur frekar valið að halda sig til hlés og stundað sína vinnu. (Hann er eini maðurinn sem enn sendir mér handskrifuð bréf). Hann sagði mér frá því, í gamansömum tón, að hann hefði sent handrit að skáldsögu til forlags, forlags sem hann hefur aldrei unnið fyrir því hann vildi ekki ónáða þá forleggjara á Íslandi sem hann þekkti. Hann taldi sig ekki fá réttláta meðferð þar sem hann nyti góðs af kunningsskap. Svona er hann, vinur minn. En hann sendi handrit sitt, sem ég fæ víst ekki leyfi til að lesa („þetta er bara gamalt rusl“), til forlags sem er kannski ekki fyrsta val metnaðarfulls rithöfundar. Ég fékk leyfi hans til að birta, í styttri útgáfu, bréf hans ef ég lofaði að halda nafnleynd.
„Ég var rétt kominn heim frá pósthúsinu, þaðan sem ég hafði sent handritið, þegar tölvupóstur (merktur highest priority) kom frá forlaginu. Mér var þakkað innilega fyrir handritasendinguna. Þau, forlagsfólkið, mundu lesa söguna mína snarlega og ég mætti vænta svara innan fjórtán daga. Dagar, vikur og mánuðir liðu. Ekkert svar. Mér var svo sem nokkuð sama. Ég gerði mér ekki neinar vonir um frami minn lægi á rithöfundarbrautinni.
Dag einn þegar ég var á leið til útlanda – ég fékk þá hugdettu að gaman væri að heimsækja útlendar borgir – bárust mér skilaboð frá forlaginu. Einhver á útgáfunni var ánægður með söguna og vildi gefa hana út. En fyrst þurfti samþykki eigandans og hann var upptekinn maður. Dagar liðu, vikur og mánuðir. Ég fór til útlanda og heimsótti bæði þýskar og hollenskar borgir, kom heim og hélt áfram mínu snuddi. Ég leiddi sjaldan hugann að handritinu en svo tók ég mig til eina nóttina. Ég hafði setið við tímunum saman yfir próförk að aldeilis lélegri skruddu sem hafði allan heimsins forgang því bókin varð að komast hratt og án hinna minnstu tafa til væntanlegra lesenda. Ég var svo úrvinda eftir lesturinn og úrillur að ég ákvað að senda tölvupóst til hins svokallaða „eiganda“. Hann hafði ég stundum séð við hin ýmsu hátíðlegu tækifæri. Ég fékk svar næsta dag. Hann hefði handritið mitt á skrifborðinu og mundi lesa það á allra næstu dögum. Hann hefði að vísu ansi annríkt, hann þyrfti að senda þessi ósköp af bókum til prentara. Dagar liðu, vikur og mánuðir og ekkert heyrðist. Ég ákvað að hnippa í manninn, áhugaleysi hans var þvílíkt að ég sá, án alls bituleika, að engin ástæða var til að við ynnum saman að prenta bók sem ég hafði skrifað. Ég sendi honum bréf og bað hann bara að senda mér handritið til baka. Ég heyrði ekkert vikum saman en dag einn lá í póstkassanum mínum umslag með handritinu án nokkurra skýringa.“
Ef til vill er handrit vinar míns ekki ný Hroki og hleypidómar en ég hugsaði með mér að slappleiki við lestur og meðferð handrita, góðra og lélegra, hjá forlögum er sennilega alltof tíður.