Espergærde. Hið æsandi líf

Ég hlakka til var það fyrsta sem kom upp í hugann þegar ég opnaði dagbókina til að skrifa færslu dagsins. Ég hafði hugsað með mér að það væri ekki svo margt sem gerðist þessa dagana. Vinna, borða, sofa eins og einhver kallar það. Ég gekk meira segja svo langt að spekúlera í hvort líf mitt væri í kyrrstöðu. Það er kannski ekki það versta að lifa kyrru lífi? Hafa skemmtilega vinnu, borða góðan mat og sofa vel? En ég uppgötvaði á þremur sekúndubrotum að ég lifi eiginlega æsandi lífi. Ég hlakka endalaust til einhvers. Á næstu vikum verð ég bæði í París, Espergærde og Reykjavík. Á næstu mánuðum bætast við New York, London, Chamonix, Ítalía og Oman. Og þetta er bara sú hlið lífs míns sem snýr að ferðum. Svo held ég að ég fái miða á Nick Cave konsert í New York í sumar. Leyniverkefni mitt í París er næst á dagskrá, í seinnihluta nóvembermánaðar. Til þess hlakka ég mikið.

ps. Ég hef fengið tvær fyrirspurnir um garðverkefnið, hvort ég sé búinn og hvenær myndirnar koma. Ég er ekki búinn, var í garðinum í gær fram á myrkur og plantaði fyrstu blómunum, timian.  Ég reikna með að klára um helgina.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.