Espergærde. Afmælisdagurinn

Davíð á afmæli í dag, 11 ár síðan hann fæddist. Í morgun þegar ég horfði yfir morgunborðið með afmælisbrauði og öðrum veisluföngum var tvennt sem kom upp í hugann og ég tengdi við fæðingu Davíðs. Fyrst varð mér hugsað til ánægjulegrar heimsóknar Söndru í Ásgarð þar sem við bjuggum þegar Davíð fæddist. Hitt sem ég rifjaði upp var baráttan við glæpasögu Jóns Halls Stefánssonar, Krosstré, sem var send í prentun þennan sama dag fyrir ellefu árum. (Það sýnir kannski íslenskan bókamarkað í hnotskurn að rúmum  tveimur vikum síðar lá bókin á metsölulista Eymundsson.) Það eru 11 ár liðin og margt hefur breyst. Ég bý ekki lengur á Íslandi, Jón Hallur býr ekki lengur á Íslandi. Krosstré er ekki lengur í brennidepli. Og Davíð er orðinn hálffullorðinn maður.

Það er gaman að fylgjast með hvað eftirvæntingin í kringum afmælið er þó enn mikil í huga Davíðs. Hann gat ekki sofnað í gærkvöldi og kom aftur og aftur inn til mín þar sem ég lá upp í rúmi og las til að tilkynna að hann gæti ekki sofið. Ég sofnaði svo útfrá lestrinum en vaknaði um hálftólfleitið við Davíð kom enn og aftur inn til að lýsa áhyggjum sínum yfir að geta ekki sofnað. Ég lagði hann því í rúmið við hlið Sus og ég lagðist sjálfur í rúmið hans. Ég heyrði ekki meira um svefnvandræði.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.