Ég hef oft sagt að ég trúi á hinn hrasandi mann. Sjálfur er ég dæmi um mann sem hrasar oft, ekki bara að ég á það til að detta í jörðina oftar en aðrir, heldur að ég geri ósjaldan hin undarlegustu mistök. Ég hrasa við hina minnstu ójöfnu.
Þessi tilhneiging hefur fylgt mér allt mitt líf. Vinir mínir, þegar ég var barn, kölluðu mig Snæja óheppna, ég var alltaf að lenda í óhöppum (brjóta bein, fá kúlu, skurð, týna hlutum, gleyma). Og Palli lagði til að stytta yrði reist af mér fyrir framan Háteigskirkju, þar sem pabbi minn þjónaði, á sama hátt og styttan af Leifi heppna var reist fyrir framan Hallgrímskirkju.
Stundum tekst mér að gera líf mitt óbærilega flókið, bara af því ég hrasa. Eitt dæmi, það fyrsta sem mér dettur í hug, um vesenið sem ég kem mér í er ferð til bókamessunnar í London fyrir allmörgum árum. Ég bjó að minnsta kosti á Íslandi þetta ár. Ég hafði gleymt að kaupa gjaldeyri áður en ég lagði af stað til Keflavíkur, svo ég ákvað að koma við í bankanum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (Leifur heppni) á leið út í flugið. Og þar byrjar vitleysan. Í bankaafgreiðslulúgunni bið ég stúlkuna um evrur. Ég var á leiðinni til London og ég veit ekki hvað kom yfir mig að biðja um evrur rétt fyrir brottför til Englands. En ég fékk sem sagt evrur í stórum seðlum ekki pund.
Ég lenti í London með fulla vasa af evrum.
„Gerðu svo vel,“ sagði ég við leigubílstjórann og rétti honum evrur fyrir fargjaldinu þegar hann hafði keyrt mig á hótelið í námunda við bókamessuna.
„Ég tek ekki við útlendum peningum, “ sagði leigubílstjórinn þurrlega.
Það kom á mig hik. Hvað átti maðurinn við? Og fyrst þá rann upp fyrir mér ljós. Hér er pund gjaldmiðill, ekki evrur! En til allrar hamingju hafði ég fyrir tilviljun nokkur pund í veskinu sem nægðu til að greiða fyrir bílferðina.
Ég gekk upp á hótelherbergið mitt og fann að ég var orðinn veikur. Ég var kominn með hita og það gerist sem betur fer ekki oft í lífi mínu. Ég lagðist í rúmið á litla hótelherberginu og hugsaði mitt ráð. Nú hafði ég veskið fullt af evrum, það var laugardagur og bankar voru lokaðir. Ég var með VISA kort en að íslenskum sið kunni ég ekki PIN númerið á kortinu mínu. Ég átti stefnumót við þýskan forleggjara eftir tvo klukkutíma í hinum enda London (og London er stór borg). Ég reiknaði út að ef ég ætti að ganga á stefnumótið (því ekki hafði ég peninga fyrir leigubíl) yrði ég að flýta mér af stað. Ég stóð á fætur og fann að ég var langt frá því að vera heill heilsu. Ég hríðskalf. Ekki gat ég afboðað fundinn þar sem ég hafði ekki símanúmer þýska forleggjarans (og ekki var maður á þessum tíma með tölvupóst í símanum). Ég varð að arka af stað, svangur, þreyttur og peningalaus.
Í febrúar er hrollkalt í London. Göngutúrinn til hótels þýska forleggjarans var því enginn skemmtiganga. Það var bæði dimmt og kalt. Regnpollar voru á gangstéttum enda smárigndi alla leiðina og ég varð fljótt blautur í fæturna. Ég kom stundvíslega á fundinn og settist inni í móttöku hótelsins, feginn að hafa náð inn í hlýjuna. Ég beið þar til tíu mínútur voru komnar fram yfir settan fundartíma áður en ég bað fólkið í móttökunni að hringja upp á herbergi hins ágæta forleggjara. Þau hringdu en fengu ekkert svar. Ég settist aftur og byrjaði, eins og mín er von og vísa, að efast um að fundurinn hefði verið settur á þeim tíma sem ég hafði skráð hjá mér og ég fór líka að efast um að ég var á réttum stað.
Ég gekk aftur upp til fólksins í móttökunni og spurði hvort það hefði ekki örugglega hringt í forleggjarann, og nefndi nafn konunnar. Jú, svo sannarlega hefðu þau hringt upp á herbergi þessarar nefndu konu. En þau höfu bara ekki fengið svar. Sennilega var hún farin eitthvert.
Ég fékk mér aftur sæti og beið. Mér var ekki rótt, ég spekúleraði eins og galinn maður í hvað ég hafði misskilið í þetta sinn. Nú var kominn meira en 45 mínútur fram yfir þann tíma sem við höfðum komið okkur saman um að hittast. Ég gerði síðustu tilraun til að ná samband við konunna og bað þau í móttökunni að reyna að hringja enn og aftur. Ekkert svar.
Ég gekk hnípinn út í regnið og hugsaði með mér að nú sæti hinn þýski forleggjari örugglega á einhverjum öðrum stað og biði eftir mér. Ég horfði upp í kolsvartan Lundúnarhimininn og hugsaði mitt ráð. Á hægri hönd sá ég enskan pub og ég ákvað að ganga þangað inn og panta bjór þó ég vissi að ég gæti ekki borgað hann. Ég drakk bjórinn í rólegheitunum við barinn og fann hvað ég var slappur og þreyttur. En bjórinn var góður, mjög góður, og ég kláraði úr glasinu og gaf barmanninum merki um að koma. Ég vildi borga. Hann setti reiknininn á borðið og ég rétti honum hinn stóra evruseðil.
„Áttu ekki pund?“
„Nei, þetta er eina sem ég á og ég kann ekki PIN númerið á VISA kortinu mínu.“
„Ég get ekki tekið við evrum.“
„Hvað gerum við þá, viltu að ég vaski upp?“
Barmaðurinn leit vonsvikinn á mig og sneri svo baki í mig. Ég stóð upp og fór.
Nú beið mín löng ganga upp á hótel. Ekki gat ég tekið leigubíl og ekki hafði ég peninga fyrir strætó eða lest. Og framundan voru tveir dagar með stífum fundarhöldum á bókamessunni í London.
Þegar ég kom á hótelið, nú orðinn mjög svangur, sá ég að í anddyrinu á hótelinu var sjálfssali með tannburstum, tannkremi, rakvélum og … verkjatöflum. Ég sá löngunaraugum á verkjatöflurnar. Hvað það væri gott að taka tvær verkjatöflur, fá hitann niður og sofna. En peningalaus gat ég því miður ekki keypt töflurnar. Ég gekk því upp á hótelherbergi, hrasaði niður í rúmið og steinsofnaði.
Það var ekki fyrr en næsta dag þegar ég hitti íslenska forleggjara að ég gat fengið lánaða peninga og keypt mér verkjatöflur til að halda út fundarhöldin í London.