Espergærde. Leyndarmál

Ég trúi dagbókinni ekki beint fyrir leyndarmálum. Kaktusdagbók er ekki hugsuð sem játningabók, þó þar séu margar gagnlegar játningar í þeim 300 dagbókarfæslum sem geymdar eru á Kaktusnum. (Þrjúhundruðasta færslan var í gær, yo). Ég hef heldur aldrei trúað mjög á ætlaðan sálarlétti með að hvísla leyndarmálum sínum að öðrum. Það er önnur saga.

Í gær las ég um mann sem hafði opnað vefsíðu fyrir þá sem vildu létta á hjarta sínu og deila leyndarmálum sínum með öðrum. Bauð hann upp á að birta póstkort með árituðum leyndarmálum á vefsíðu sinni. Maðurinn hefur haldið út netsíðunni PostcardSecret.com í mörg ár og lifir góðu lífi á rekstri þessarar síðu.

2-spit

Einu sinni hvatti ég fólk til að senda mér póstkort. Það var eitt af uppátækjum mínum með tímaritið Bjartur og frú Emilía. Efnt var til samkeppni sem kölluð var póstkort sem bókmenntaform. Tímaritið fékk send einhver ósköp af póstkortum og var ákveðið að birta 30 þeirra (framhlið og bakhlið) í tímaritinu. Sá/sú sem sendi besta póstkortið fékk Parísarferð að launum auk farareyris.

Vandinn var bara sá að eftir að vinningspóstkortið var fundið hafði ég klúðrað umslaginu með hinu rétta nafni vinningshafa (allir sendu póstkort undir dulnefni.) Nú voru góð ráð dýr. Umslagið var týnt og ég hafði ekki hugmynd um hver vinningshafinn var. Eftir nokkuð hik ákvað ég að lýsa eftir vinningshafa í útvarpinu. Ég man ekki hvort mér tókst að plata fréttastofu útvarps til að lýsa eftir sigurvegaranum eða hvort ég keypti lesna auglýsinu á Rás 1.

„Sá sem sendi í liðnum mánuði póstkort frá berklahælinu á Vífilsstöðum til Tímaritsins Bjartur og frú Emilía er beðinn að gefa sig fram við ritstjórn tímaritsins.“

Sem betur fer fannst vinningshafinn, eða vinningshafinn kannaðist við sjálfan sig í tilkynningunni í útvarpinu og bankaði nokkrum dögum seinna uppá hjá forlaginu. Jón Karl Helgason, sem svo seinna var ráðinn til starfa hjá Bjarti, átti flottasta póstkortið og var sendur til Parísar vorið eftir.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.