Espergærde. Hið gullna augnablik

Það er laugardagur og í stað þess að setjast  við tölvuskjáinn á skrifstofunni við brautarpallinn og skrifa í dagbókina sit ég hér í stofunni minni á Söbækvej. Allt í kringum mig er talað saman, köttur á hlaupum, eldhúsvélar með í fullum  gangi. Og til að kóróna óróleikann kemur tilkynning á skjánum um að Jón Kalman hafi sent mér tölvupóst og eigi við mig brýnt erindi. Nú finn ég hvað róin hefur mikið að segja þegar maður skrifar. Ég á erfitt með að einbeita mér.

img_8564
Postmodernisk mynd af dagbók í smíðum.

Í gærkvöldi byrjaði ég á nýrri bók Guðrúnar Evu, Skegg Raspútíns, og ég ætlaði ekki að geta hætt að lesa. Ég las langt fram á nótt. Hér er sú Guðrún Eva mætt sem ég hef beðið lengi eftir. Meira blátt áfram, það fer henni vel. Ég var að minnsta kosti ánægður með það sem ég las í gær.

Mér varð allt einu hugsað til hins gullna augnabliks. Hins ógleymanlega augnabliksins þar sem skyndilega allt smellur saman. Sonur búddaprestsins Haruki Murakami hefur sagt frá slíku augnablik í bók sinni What I Talk About When I Talk About Running. Murakami lýsir því þegar hann sat á sólríkum sumardegi í grasivaxinni brekku, drakk bjór og fylgdist með hafnarboltaleik. Allt í einu smellhittir maðurinn með kylfuna boltann svo það glymur í. Þetta einstaka hljóð þegar maður nær hinu fullkomna höggi – eða hinu fullkomna sparki – bolti og kylfa bráðna saman og sekúndubroti síðar þýtur boltinn í burtu í hraða ljóssins. Dunk! Murakami varð samstundis fyrir uppljómun. Ég get skrifað skáldsögu, hugsaði hann. Þannig byrjaði ferillinn.

Nú stend ég upp. Ég klæddi mig í moldarfötin í morgun því úti í garði bíða enn verkefni. Fyrir utan gluggann standa hjólbörurnar. Ég hef aldrei fyrr séð hjólbörur með gult dekk. Vindar blása og gulnuð laufin fjúka af trjánum. Brátt geng ég út í haustkulið og leggst á hnén í blauta moldina.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.