Espergærde. Steyputröppur

Í gær byrjaði nýtt verkefni í garðinum bak við húsið. Ég þarf að brjóta niður steyputröppur. Tröppur fullar af sementi. Hér rignir. Það hefur rignt dögum saman. Ég hef staðið gegnvotur í bakgarðinum með höggbor og sleggju á meðan regnið hefur hellst niður yfir mig. Það er seinunnið verk að brjóta þessar hörðu tröppur. Ég slæ fast með sleggjunni, ég keyri á fullum krafti með höggborinn á sementið. Þetta tekur svo á að ég er dofinn í höndunum að loknu dagsverki og hálfheyrnarlaus eftir lætin í bornum. Í næstu viku ætla ég að byggja trépall fyrir aftan húsið og því þurfa tröppurnar að víkja því þær standa þar sem pallurinn á að vera og tröppurnar eru leifar af annars konar skipulagi á húsinu. Þar sem tröppurnar standa voru einu sinni dyr með hurð í, en dyrnar eru ekki lengur og þess vegna er hurðin líka farin. En tröppurnar standa enn, eða þangað til ég hef brotið þær niður.

Það fyndna er að það er eins og enginn trúi að ég sinni þessum miklu garðverkefnum. Hingað hafa borist skilaboð, í gamansömum tón, jafnvel kaldhænislegum, þar sem ég er spurður út í verkefnin í garðinum. Sus hefur líka hlegið að mér þegar ég fer í moldarbuxurnar á leið út að moka eða bera. Í gær tók hún mynd þar sem ég barðist við tröppurnar og höggborinn til að geta sannað fyrir hinum vantrúuðu að þessi verkefni eigi sér stað í veruleikanum, ekki bara í höfðinu á mér.

Í gær fengum við gesti sem sátu lengi, drukku rauðvín og bjór og borðuðu rétt sem heitir eitthvað á frönsku. Þegar gestirnir fóru heim að sofa tók ég til í eldhúsinu. Klukkan var orðin nótt og ég komst ekki til að halda áfram með að lesa Guðrúnar Evu bók. Það virðist gleðja marga að ég er ánægður með byrjunina í bókinni hennar Evu því ég fékk allmörg tilskrif í gær þar sem menn lýsa yfir gleði sinni að sagan hennar sé góð.  En ég var orðinn of þreyttur þegar ég skreið undir kalda sængina í nótt. Ég tók samt upp iPadinn opnaði bókina og las fyrstu línurnar en ég fann að ég mundi sofna fljótlega svo ég lagði iPadinn aftur frá mér, hagræddi koddanum, setti mitt litla höfuð í góða svefnstellingu og leið hratt inn í draumalandið. Svona var nú það í gær.

Nú er kominn nýr dagur. Ég hef setið við skrifborðið í stofunni og skrifað í dagbókina, nýbúinn að borða morgunmat og lesa dagblöðin. En nú stend ég upp frá dagbókarskrifum. Ég er klæddur í moldarbuxur. Enn rignir, og ég er á leiðinni út.

img_8567
Hjólbörur með gul dekk

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.