Espergærde. Ég og Bill

Hjólið mitt var ekki heima þegar ég lagði af stað til vinnu í morgun, þess vegna fór ég fótgangandi. Það tekur mig 14 mínútur að ganga upp á lestarstöðina og inn á kontórinn. Ég valdi sömu leið og ég hjóla, eftir fáförnum götum og upp litla brekku. Mér finnst gott að ganga, það er meiri ró yfir því en að hjóla. Ég er haldinn einhverri vitlausri þráhyggju; ég þarf alltaf að hjóla hratt, í kappi við tímann og sjálfan mig. En ég geng hægt, rölti. Á leiðinni eftir hinum kyrrlátu götum velti ég því fyrir mér hvernig hinn og þessi mundu þrífast hér í bænum. Fyrst komu nokkrir  rithöfundar í hugann; Daniel Kehlmann, Niccolo Ammaniti, Lena Anderson, Jonathan Frenzen (hér gæti hann skoðað fugla í skóginum) en svo hugsaði ég með mér. Afhverju hringa hugsanir mínar alltaf innan þessa bókmenntaheims. Ég lifi í alltof lítilli veröld.

Þess vegna setti ég Mark Zuckerberg, Bill Gates, Angelu Merkel í mín spor, á göngu snemma morguns á björtum frostdegi á leið upp á lestarstöðina. (Peter Schmeichel býr hér, hann er frægur fótboltamaður og virðist hafa það gott í bænum. En ég hef aldrei séð hann í lestinni. Hann vill ekki æfa fótbolta með mér og hinum fótboltamönnunum í Espergærde. Við verðum aldrei vinir, ég og Peter.) En ég vildi að Bill Gates ætti heima hér og við værum vinir. Ég mundi þá spyrja hann um hugmynd að forriti sem ég geng með í maganum og kanna hvort hann hefði áhuga á að vera með mér í að prógrammera og setja forritið á markað. Við mundum hittast til skiptis heima hjá mér og heima hjá honum. Við mundum ræða um forritið og drekka kaffi saman. Hann mundi hlæja að fákunnáttu minni og ég mundi hlæja með honum.

Einu sinni reyndi ég að vingast við Steven Spielberg. Ég sendi honum bréf, sagði honum hver ég væri og hvort við ættum að verða vinir. Við gætum byrjað vinskap okkar, skrifaði ég, með því að vinna saman að kvikmyndun Blíðfinnsbókanna. Hann svaraði mér aldrei. Hefur sennilega ekki haft þörf fyrir nýja vini.

Ég yrði feginn að eignast góðan félaga sem ekki væri í bókmenntaheiminum. Bækur, bækur, bækur. Í kvöld ætla ég að setja mig inn í hvernig ég forrita, svo ég geti leikið mér að því að búa til tölvuprógrammið mitt. Kannski gæti ég imponerað Gates eða Steve Jobs.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.