Espergærde. Niður í einbeitingardjúpið

Eins og ég hafði lofað sjálfum mér, settist ég niður í gærkvöldi og byrjaði að forrita. Inni í stofunni heima hjá mér er lítið skrifborðshorn með góðum lampa. Stóllinn er þægilegur og á hann hefur verið lögð lambagæra. Kötturinn minn, Gattuso, er ánægður þegar ég sit við skrifborðið í horninu, þá hann hoppar upp í kjöltu mína, kúrir sig og malar.

Ég geng með litla hugmynd að hugbúnaði sem mig langar að prufa að forrita sjálfur. Þegar ég einbeiti mér, sekk djúpt niður í verkefni, er ég ánægður. Að vera niðursokkinn er hin besta uppspretta vellíðunar. Skapandi fólk er í grunninn egóístíkt, segir Murakami. Ég á ekki við að ég sé skapandi, langt í frá, mér finnst bara gott þegar ég kafa niður í einbeitingardjúpið þar sem enginn annar er.

Það var orðið áliðið kvölds þegar ég stóð upp frá forrituninni, ég hafði náð að láta tölvuna reikna svolítið út fyrir mig, lítinn bút,  og það var nóg til að gera mig ánægðan. Þegar ég lagðist til svefns hringsnerust reikniformúlur um í höfðinu á mér. Ég sofnaði seint en þegar ég vaknaði í morgun hafði ég fengið hugmynd að lausn ákveðinna vandamála sem ég rakst á í gær. Forritið er mjög einfalt og ég er ekki viss um að Bill Gates verði upprifinn þegar hann kíkir á það með mér.

Í gær las ég  viðtal við japanskt tónskáld sem hélt því fram að sorgartilfinning hjá japönsku fólki og öllum frá Asíu kæmi frá öðrum stað en hjá vestrænu fólki. Og Gyðingar hafa enn aðra uppsprettu sorgar. Mér fannst þetta merkilegt.

 

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.