Ég vaknaði klukkan hálffimm í nótt við að Númi stóð yfir mér.
„Pabb, pabb… Trump er að vinna kosningarnar.“
„Nei.“
„Pabb… Trump er að vinna. Clinton tapar í fylkjum sem hún var talin örugg um að fá meirihluta.“
„Nei.“
Ég fann fyrir algjörum vanmætti… og reiði. Átti ég bara að halda áfram með að sofa eða ætti ég að koma niður og sjá í sjónvarpinu hvað var að gerast? Ég sparkaði af mér sænginni og gekk niður með Núma sem hafði vakað alla nóttina yfir kostninganiðurstöðunum. Ég fann að ég var í vondu skapi og hugsaði með mér að það sé svona sem fólki líður sem vaknar morgunfúlt. Það er ég aldrei. Ég leit út um gluggann og út í garðinn og sá í gegnum náttmyrkrið að það hafði snjóað í nótt. Svartur snjór.
Í gærkvöldi áður en ég fór að sofa horfði ég á heimildarmynd um Trump, þetta var góð heimildarmynd, sem varð til þess að ég óttaðist manninn meira en ég hafði gert. Þegar ég lagðist til svefns hafði ég verið handviss um að Clinton mundi vinna og var því ekkert sérstaklega áhyggjufullur. Í þættinum var uppvexti Trumps lýst, sagt frá skólagöngu hans, föður hans og hans mikla byggingarveldi, samstarfi þeirra Trump feðga. En fyrst og fremst var þetta lýsing á manni sem hefur nært hið illa með sér allt frá því hann var barn. Trump naut þess að pína, meiða og niðurlægja önnur börn. Samkvæmt heimildarmyndinni hefur hann ekki breyst frá því hann var skóladrengur.
Þegar ég var strákur var annar strákur í hverfinu, Erling, sem við kölluðum villing. Allir voru hræddir við Erling því hann naut þess að vera vondur og láta öðrum líða illa. Hann píndi minnimáttar og notaði hinar verstu aðferðir til að gera lítið úr fólki.
Einu sinni seint um kvöld átti ég erindi í sjoppuna í Starmýri. Ég var einn á ferð. Þegar ég nálgaðist þessa litlu sælgætisverslun sem sendi skæra birtu út í dimmt haustkvöldið, sá ég í ljósbjarmanum að Erling og vinir hans héngu fyrir utan. Það fyrsta sem mér datt í hug var að snúa við, en sælgætislöngunin var sterkari en óttinn við Erling og félaga svo ég gekk áfram og lét eins og ekkert væri. Ég hraðaði mér í átt til þeirra en ég tók eftir að þeir veittu komu minni athygli. Það var ekki gott. Um leið og ég ætlaði að smokra mér fram hjá hópnum og inn í sjoppuna tók Erling upp úr vasanum svarta, þunga skammbyssu og beindi að höfðinu á mér. Mér brá mjög mikið þegar ég fann kaldan byssumunninn kyssa mig á gagnaugað. Og svo kom hvellurinn, gífurlega hár svo mig verkjaði í eyrun og svo varð allt svart.
Ég náði að hugsa, og sú hugsun var hein og tær, alveg án ótta: Nú er ég dáinn. Það er ekki svo slæmt. Allt var kolsvart, það var eins og ég svifi um í svörtu tómi. Svo heyrði ég rödd í gegnum suðið fyrir eyrunum.
„Er allt í lagi, vinur? Ertu í lagi?“ Og það var klappað blíðlega á öxlina á mér. Ég opnaði augun og sá ljóshærða konu í rauðum búðarslopp stumra yfir mér þar sem ég lá á sjoppugólfinu. Ég var þá ekki dáinn. Púðurskot.
Trump er Erling Ameríku. Hann er hið illa og ég er innilega sorgmæddur yfir að meirihluti Bandaríkjamanna velji hið sataníska til að halla sér að. Þetta er sigur hins djöfullega.