Espergærde. Rödd í myrkrinu

Merkileg tilviljun að rödd Hannesar Péturssonar barst skyndilega í gegnum hátalarana hér á kontórnum þegar ég settist við skrifborðið í morgun. Ég hafði ekki einu sinni kveikt ljósin, bara sest á stól, og sennilega hef ég óvart ýtt við einhvern takka því alveg upp úr þurru upphófst ljóðalestur:

Að deyja (þögn)

Undarleg ósköp að deyja…

Ég þekkti auðvitað samstundis röddina og ljóðið, enda oft hlustað á þennan fína útvarpsþátt Eiríks Guðmundssonar þar sem hann heimsækir skáldið á Álftanesi. Ég var því ekki vitund skelkaður einn í myrkrinu. Ég hallaði mér bara aftur og hlustaði á spjall þeirra félaga, enn og aftur.

Ég lagði lokahönd á garðverkefnið mitt þegar ég kom heim í gær, og seinna gat það ekki verið. Nokkrar plöntur höfðu villst af leið frá blómasalanum og til mín og eftir þriggja vikna ferðalag stóðu plönturnar skyndilega í bílskýlinu heima hjá mér þegar ég kom frá vinnu í gær. Það hefur verið frost síðustu daga í Espergærde svo þetta er nú ekki sérlega gáfuleg iðja, að grafa plöntur í hálffrosna jörð. En ég gerði það samt, ekki geta blómin staðið í pottunum sínum í þessum kulda.

Í dag þarf ég inn í Kaupmannahöfn að stilla upp bókum í bókabás okkar fyrir bókamessuna dönsku í BellaCenter. Davíð og Númi ætla að koma með og hjálpa mér. Davíð er meira að segja búin að semja um tímalaun. Messan byrjar á morgun og stendur fram á sunnudagskvöld. Ég á eftir að selja margar bækur ef ég þekki mig rétt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.