Espergærde. Sumarið sem ég varð feitur

Við vorum varla búinn að borða morgunmatinn í gær þegar Númi lítur upp frá símanum sínum og segir: „Leonard Cohen er dáinn.“
Enginn sýndi eins sterk viðbröð við þessari fregn og Sus sem veinaði upp yfir sig: „Nei!“

Cohen hefur verið hlaupafélagi hennar í tíu ár. Sus hleypur bara við undirleik Cohen, Live from London-platan ræður hlaupataktinum.

Árni Sigfússon (sem síðar varð borgarstjóri yfir Reykjavík) á heiðurinn að því að kynna mig fyrir söngvum Cohens. Ég hef sennilega verið 10 ára og besti vinur minn á þeim tíma var Gylfi Sigfússon (ég held að hann sé eða hafi verið forstjóri Eimskips) bróðir Árna. Einn dag þegar við höfðum verið úti að leika saman bauð hann mér koma heim til sín. Við gengum inn og sá móti okkur tók  dapurleg tónlist frá stofunni. Þar inni voru tveir unglingsdrengir, annar hélt á gítar (Árni) og hinn (Hreinn Loftsson) grúfði sig yfir sjálfum sér meðan tónar frá hátölurunum gengu yfir þá eins og öldur. Þeir vögguðu með.

Árni bað okkur að koma inn í stofu og hlusta á þennan mikla meistara sem flutti tónlistina. Þetta var Leonard Cohen sem söng og lék. Platan var Songs of Leonard Cohen og það var fyrst og fremst lagið Suzanne sem ég féll gersamlega fyrir. Mér fannst það rosalega flott.

Ég hafði töluvert af þeim bræðrum Gylfa og Árna að segja. Við Gylfi vorum bekkjarbræður og miklir félagar á tímabili. Pabbi þeirra, Sigfús Johnsen, átti sjoppu á Vesturgötu 10. Þar unnum við Gylfi eitt sumar. (Sumarið sem ég varð feitur eins og það sumar er kallað í minni fjölskyldu.)

Vinskapur okkar Gylfa endaði ansi bratt. Þetta sama sumar og ég vann í sjoppunni kom systir mín og þáverandi maður hennar Steingrímur (sem var mikill kommúnisti og afar skapbráður) heim frá námi í Svíþjóð. Steingrímur spurði mig hvað ég væri að gera þetta sumar og ég sagði honum frá sjoppunni. Vinnuskiptingin var þannig að Gylfi hafði dagvaktirnar en ég kvöld- og helgarvaktir. Launin voru, það sem sjoppueigandinn Sigfús kallaði, jöfnunarlaun sem þýddi að ekki skipti máli hvor maður vann dag eða nótt. Tímalaunin voru þau sömu, en hærri en venjuleg daglaun. Það má segja að þetta hafi komið Gylfa ansi vel. En mér var alveg sama og spekúleraði ekki svo mikið í laununum. Ég var hvort sem er alltaf með fulla hendur fjár.

En maður systur minnar var ekki hrifinn og taldi Sigfús mikinn arðræningja. Í bræði sinni yfir óréttlæti hins kapítalíska kerfis og kúgunarvaldi kapítalistanna hringdi hann umsvifalaust i Sigfús og kallaði manninn öllum illum nöfnum og hvort hann skammaðist sín ekki fyrir að arðræna barn.

Sigfús sjoppueigandi var að vonum ekki sérlega ánægður með þessa símhringingu. Hann hringdi sama kvöld í mig og sagði mér að mæta ekki oftar í sjoppuna. Ég varð leiður yfir þessu og fannst uppákoman hin vandræðalegasta. Við Gylfi höfum ekki talast við síðan.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.