Espergærde. Í fótboltabúningi við öll tilefni.

Þótt hér sé bítandi kuldi, hávetur og ég eigi afmæli, bíður mín útivinna í dag. Hingað er kominn eldri herramaður frá Jótlandi, Bork. Hann er smiður og ætlar að vera með mér við að  hanna og byggja garðpallinn bak við húsið. Timbur kom í gær á risaflutningabíl. Bíllinn var of stór fyrir götuna hér svo ég þurfti að afferma bílinn niður við Bakkegårdsvej. Það verður langur göngutúr með plankana í dag.

Og enn og aftur fékk ég óskir mínar uppfylltar á afmælisdaginn, að minnsta kosti flestar. Lakkríspípur, sokkar og hvít tennisföt voru í afmælispökkunum sem ég opnaði í morgun. Ég hef lengi óskað að klæðast hvítum tennisfötum þegar ég spila tennis. Ég stefni á þátttöku í Wimbleton. Ég á engin tennisföt, ég á aldrei neitt sem passar við tilefnið. Fótboltatreyja, fótboltasokkar og fótboltabuxur er það sem ég á og ég spila tennis í fótboltabúningi, vinn í garðinum í fótboltafötum, hleyp mitt langhlaup í fótboltafötum. Aftan á treyjunni minni stendur Zlatan. Ég er ekki græjumaður.

Á afmælisdaginn minn sakna ég að vera ekki á Íslandi. Það hefði verið gaman að hitta börnin mín og Agl og Styrm og Mónu og Millu. En ég held mína litlu afmælisveislu hér í Danmörku. Þar  eru allir góðir við mig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.